„Það vantar alltaf blóð“
Blóðbankinn verður með blóðsöfnun á heilsugæslunni Egilsstöðum í dag og á heilsugæslu Alcoa Fjarðaáls seinnipartinn á morgun. Hjúkrunarfræðingur hjá Blóðbankanum vill hvetja íbúa til þess að koma og gefa blóð.
Ef þú ert á aldrinum 18-65 ára, yfir 50 kíló að þyngd og við góða heilsu gætir þú gerst blóðgjafi.
„Segja má að þetta sé einnig góð heilsufarsskoðun í leiðinni, en við fyrstu komu tökum við einungis blóðprufur og mælum blóðþrýsting og slíkt, auk þess sem farið er yfir heilsufarssögu viðkomandi,“ segir Lilja Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur hjá Blóðbankanum, en inn á heimasíðu Blóðbankans má lesa um þau skilyrði sem blóðgjafi þarf að uppfylla.
„Það er mjög nauðsynlegt að við söfnum úr öllum blóðflokkum því það vantar alltaf blóð. Þess vegna förum einnig út á land til þess að koma til móts við fleiri,“ segir Lilja sem vill hvetja alla til þess að líta við á heilsugæslunni á Egilsstöðum í dag, en opið verður til klukkan 16:00. Á morgun verður blóðsöfnun á heilsugæslunni í Alcoa Fjarðaáli milli klukkan 16:00 og 18:00.