Skip to main content
Bæði á Djúpavogi og á Seyðisfirði er hugmyndin að bora á næstunni í þeirri von að heitt vatn finnist. Slíkar boranir eðli máls samkvæmt kostnaðarsamar

Tæpir fjórir milljarðar í fjárfestingar HEF veitna næstu fjögur ár

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. okt 2025 14:48Uppfært 31. okt 2025 10:04

Heildar fjárfestingar HEF-veitna næstu fjögur árin munu nema rúmlega 3,7 milljörðum króna en stjórn fyrirtækisins samþykkti fyrir skömmu áætlun næsta árs sem og þriggja ára áætlun 2027 til 2029.

Umræður um fjárfestingar næstu ára fóru fram samhliða umræðum um rekstrarstöðu fyrirtækisins á árinu en miðað við útkomuspá í árslok verða heildartekjur rúmlega 1,1 milljarður, gjöldin um 570 milljónir og áætluð afkoma ársins um 350 milljónir alls. 

Samþykkti stjórn fyrirliggjandi fjárhagsáætlun en hún fer síðan fyrir sveitarstjórn Múlaþings sem eigandi veitufyrirtækisins til endanlegrar staðfestingar. Þá var einnig samþykkt að gjaldskrá hitaveitu og fjarvarmaveitu á Seyðisfirði hækki um 3,5% um áramótin sem er í takti við hækkun vísitölu.

Sjö hundruð milljónir á komandi ári

Einar 703 milljónir króna eru eyrnamerktar fjárfestingum næsta árs samkvæmt áætluninni. Þar verður framkvæmd mest í hitaveituhlutanum eða um 311 milljónir króna meðan 212 milljónir fara til fráveituverkefna og 89 milljónir til vatsveitumála. Þá skal uppfæra fjarvarmaveitu Seyðisfjarðar fyrir 88 milljónir og 4 milljónir aukreitis í verkefni vegna gagnaveitu fyrirtækisins.

Sundurliðun á þriggja ára fjárfestingaráætlun milli 2027 og 2029 liggur ekki fyrir en upphæðin til fjárfestinga hækkar töluvert strax árið 2027 þegar fjárfesta skal fyrir rétt tæpum 1,2 milljarði króna. Aðeins dregið úr 2028 þegar framlag til fjárfestinga verður 944 milljónir og lækkar í 870 milljónir árið 2029.