Tæplega 1800 manns kosið utankjörfundar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 29. nóv 2024 21:42 • Uppfært 29. nóv 2024 21:44
Met var sett í utankjörfundaratkvæðagreiðslu hjá sýslumanninum á Austurlandi fyrir Alþingiskosningarnar sem verða á morgun. Verulegur kippur kom í atkvæðagreiðsluna þegar veðurspá versnaði í vikunni.
Þegar sýsluskrifstofurnar lokuðu klukkan 18 í kvöld höfðu alls verið greidd 1775 atkvæði utankjörfundar. Þar af voru 673 atkvæði greidd í dag, 345 í gær og alls 1500 í þessari viku.
Umskipti urðu þegar líkur jukust á að vond veðurspá fyrir kjördag gengi eftir. Aldrei hafa í nokkrum kosningum verið greidd jafn mörg atkvæði utankjörfundar á Austurlandi, að sögn Svavars Pálssonar, sýslumanns. Utankjörfundaratkvæðin voru afhent frá sýslumanni til kjörstjórna í hverju umdæmi fyrir sig í kvöld.
Almennt er mikil þátttaka í utankjörfundaratkvæðagreiðslunni. Í kvöld höfðu verið greidd 43.200 atkvæði utan kjörfundar, fleiri en alls í þingkosningunum árið 2021. Fram kom í fréttum Stöðvar 2 í kvöld að munurinn lægi í atkvæðum úr landsbyggðarkjördæmum. Gular veðurviðvaranir hafa verið gefnar út á morgun fyrir Austurland, Austfirði, Suðausturland, Norðurland eystra og Norðurland vestra.
Á kjördag er opið hjá sýsluskrifstofunni á Egilsstöðum frá 10-14 og á Seyðisfirði frá 14-16 fyrir kjósendur sem ekki geta mætt á sinn kjörstað. Þeir þurfa þó sjálfir að koma atkvæði sínu til skila.
Mynd: Heiður Ósk Helgadóttir