„Þarna er landið okkar, Guðni, þarna er Ísland“
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og frú Eliza Reid voru í opinberri heimsókn á Borgarfirði eystri, Fljótsdalshéraði og í Fljótsdalshreppi á dögunum. Í ferðinni heimsóttu þau skóla, stofnanir og fyrirtæki og hittu fjölmarga íbúa að máli.
Þetta var fyrsta opinbera heimsókn forsetahjónanna á Austurland frá því Guðni tók við embættinu.
„Það er mér og okkur hjónum afar brýnt að fara sem víðast og hitta sem flesta. Það er í verkahring forseta að vera í sem bestum tengslum við fólkið í landinu. Hér var hægðarleikur að setja saman spennandi og fjölbreytta dagskrá. Hingað er gott að koma, Austfirðingar eru höfðingjar heim að sækja og það höfum við svo sannarlega fundið þá daga sem við höfum dvalið hér. Fyrir okkur er mikilvægt að finna hjartsláttinn í samfélaginu og að íbúar landsins finni að við séum saman í þessu samfélagi okkar, að forsetinn sé ekki bara á Bessastöðum,“ segir Guðni.
Bæði tækifæri og áskoranir á Austurlandi
„Á Austurlandi, eins og annars staðar í landinu, eru bæði tækifæri og áskoranir. Við þurfum bara að tryggja að fólk sem vill sýna hvað í því býr fái til þess svigrúm og tækifæri. Einnig að öll grunnþjónusta sé tryggð. Við sem búum í þessu landi eigum að geta gengið að öflugri heilbrigðisþjónustu vísri, sem og skóla- og menntakerfi. Einnig er mikilvægt að samgöngur séu góðar og tómstundalíf í blóma. Fámenni og nálægð geta styrkt byggðarlög en mega ekki vera þrúgandi. Fólk þarf að geta brugðið sér af bæ og hitt mann og annan.“
Meginmarkmiðið að hitta sem flesta
Kjörtímabil Guðna er rétt rúmlega hálfnað. Hvernig hefur vegferðin verið? „Hvern einasta dag finnur maður hversu einstakur heiður það er að gegna þessu embætti. Oftast er það skemmtilegt en stundum erfitt. Það sem mun eflaust standa upp úr í minningunni eru þau forréttindi að fá að kynnast svo mörgum, svo víða. Ég lít á það sem eitt meginhlutverk mitt sem forseta að hitta sem flesta sem þess óska, hlusta á ólík sjónarmið, fara sem víðast og reyna á þann hátt að leggja mitt lóð á vogarskálarnar til þess að fólk finni að við séum ein heild og enginn sé yfir aðra hafinn.“
„Þarna er landið okkar, Guðni, þarna er Ísland“
Á Guðni einhverja minningu um Austurland frá fyrri tíð? „Já, hana á ég. Við fjölskyldan fórum tvisvar með Smyrli, sem þá sigldi milli Íslands og Færeyja, til Evrópu þar sem við ókum milli landa og snerum svo heim. Það er greypt í mitt barnsminni þegar við pabbi vorum uppi á dekki á Smyrli og sáum Austfjarðafjöllin rísa úr sæ. Þá sagði pabbi: „Þarna er landið okkar, Guðni. Þarna er Ísland.“ Það voru Austfirðir. Við sigldum inn Seyðisfjörð, þennan langa og þrönga fjörð, og siluðumst svo upp Fjarðarheiðina.“
Ljósmynd: Gunnar G. Vigfússon. Forsetahjónin glaðbeitt fyrir utan Wasabi-ræktunina á Héraði.