Skip to main content

Tekist að fyrirbyggja allt tjón á Breiðdalsvík hingað til

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. feb 2025 12:04Uppfært 06. feb 2025 13:18

Staðan vegna veðurofsans er öllu betri á Breiðdalsvík og Djúpavogi en víða annars staðar á Austurlandi. Ekki hefur orðið neitt teljandi tjón á hvorugum staðnum.

Ingólfur Finnsson, í stjórn björgunarsveitarinnar Einingar á Breiðdalsvík, segir að sveitin sé vissulega að störfum en starfið snúist að öllu leyti að því að fyrirbyggja tjón og það tekist með ágætum hingað til.

„Það gengur allt vel enda er veðrið tiltölulega meinlaust hérna miðað við stöðuna víða annars staðar. Við höfum svona fyrst og fremst verið í að reyna að koma í veg fyrir hugsanleg tjón og tekist að fyrirbyggja allt slíkt hingað til. Þannig að þetta er alveg að sleppa til hér.“ Þar voru þó farnar að losna plötur utan á slökkvistöðinni.

Sömu sögu er að segja af félögunum í björgunarsveitinni Báru á Djúpavogi en þar hefur veðurofsinn ekki náð sömu hæðum og norðar í fjórðungnum að sögn formannsins Inga Ragnarssonar.

„Nei, við erum nokkuð rólegir hér þó auðvitað sé mjög hvasst hér úti á nesinu. En ekkert alvarlegt komið upp á ólíkt því sem hefur gerst annars staðar. Við erum að sleppa nokkuð vel við þennan veðurofsa.“
Við Víkurgerði í sunnanverðum Fáskrúðsfjarði er varað við að þakplötur séu að fjúka í kringum þjóðveginn.