Telja ekki rétt að gefa út loðnukvóta

Hafrannsóknastofnun telur ekki rétt að gefa út loðnukvóta fyrir komandi vertíð. Þetta er niðurstaða nýafstaðins rannsóknarleiðangur.

Leiðangurinn stóð yfir frá 7. september til 5. október og var farinn á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni og norska uppsjávarskipinu Erosi. Rannsóknarsvæðið náði frá landgrunninu við Austur Grænland, suðvestur með landgrunnskanti Grænlands, um Grænlandssund, Íslandshaf, hafsvæðis vestan Jan Mayen og Norðurmið.

Í tilkynningu Hafrannsóknastofnunar segir að loðna hafi fundist víða á rannsóknasvæðinu, ungloðna sem myndar hrygningar- og veiðistofninn fyrir vertíðina 2021/22 hafi verið vestast og sunnan til en eldri loðna var mest áberandi norðan, á landgrunni Grænlands, austan við Scoresbysund.

Almennt var kynþroska loðnu að finna á svipuðum svæðum og undanfarin ár, en útbreiðsla hennar náði þó hvorki norður fyrir Kong Oscar fjörð né austur fyrir Kolbeinseyjarhrygg.

Heildarmagn loðnu mældist rúm ein milljón tonn og þar af var stærð veiðistofns komandi vertíðar 2020/21 um 344 þúsund tonn. Mikið var af ungloðnu, um 734 þúsund tonn af ókynþroska loðnu eða 146 milljarðar. 50 milljarða þarf til að mælt verði með að gefinn verði út kvóti fyrir vertíðina 2021/22. Þessi gögn verða lögð fyrir Alþjóðahafrannsóknaráðið sem veitir ráðgjöf um byrjunarkvóta fyrir þá vertíð fyrir lok nóvember.

Gildandi aflaregla byggir á að skilja eftir 150 þúsund tonn til hrygningar í mars 2021. Í samræmi við þá reglu leggur Hafrannsóknastofnun til að ekki verði leyfðar loðnuveiðar á vertíðinni 2020/21 þar sem framreikningar á stærð hrygningarstofnsins við hrygningu ná ekki þessum mörkum.

Ljóst er að þessi tíðindi eru áfall fyrir austfirskar útgerðir, byggðarlög og íbúa. Meirihluti þeirrar loðnu sem íslensk skip hafa veitt hefur verið landað og unninn í austfirskum höfnum. Engin loðna hefur veiðst síðustu tvö ár og nú er útlit fyrir að ekkert veiðist þriðja árið í röð. Áður hafði ríkt bjartsýni en eftir leiðangur fyrir ári síðan var reiknað með að hægt yrði að gefa út 170 þúsund króna byrjunarkvóta.

Ekki er þó öll nótt úti enn. Veiðistofninn verður aftur mældur í janúar og febrúar og veiðiráðgjöfin endurskoðuð veiti þær rannsóknir nýjar upplýsingar. Í tilkynningu Hafrannsóknastofnunar kemur fram að hafís hafi hindrað yfirferð á norðanverðu rannsóknarsvæðinu í ár en í sumum tilfellum hafi loðna fundist nærri ísnum. Því gæti kynþroska hluti stofnsins verið vanmetinn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar