Telja Reykjavíkurborg hafa brugðist í flugvallarmálum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 18. feb 2025 10:15 • Uppfært 18. feb 2025 10:17
Sveitarstjórn Múlaþings telur Reykjavíkurborg hafa brugðist í ábyrgð sinni í að tryggja aðgengi að flugvellinum í Reykjavík. Bæjarráð Fjarðabyggðar segir málið snúast um lífsnauðsynlega hagsmuni íbúa landsbyggðarinnar.
Tíu dagar eru síðan austur-vestur flugbraut vallarins var lokað þar sem Samgöngustofa taldi tré nærri flugvellinum vera orðin of há. Vika er síðan byrjað var að fella fyrstu trén þar. Þegar hafa verið felld um 160 tré og áformað er að fella um 400 í viðbót. Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi kom fram að það taki rúma viku.
Þá greindi RÚV frá því að nærri fjögur ár séu síðan Isavia hóf að gera athugasemdir við trjávöxtinn. Sá þrýstingur stigmagnaðist enn frekar fyrir tveimur árum. Gögn RÚV sýna að Reykjavíkurborg hefur þann tíma ítrekað tafið málið.
Málið hefur verið á borði austfirskra sveitarstjórna undanfarnar vikur en það var Miðstöð sjúkraflugs á Íslandi, sem Sjúkrahúsið á Akureyri, Norlandair og Slökkvilið Akureyrar standa að, sem vakti athygli á í hvað stefndi í janúar. Fyrr í þessum mánuði ályktaði Samband sveitarfélaga á Austurlandi um það.
Óásættanlegt að stefna öryggi landsbyggðarinnar í voða vegna tregðu við að fækka trjám
Sveitarstjórn Múlaþings samþykkti samhljóða bókun á fundi sínum í síðustu viku. Þar segir að Reykjavíkurborg hafi brugðist í málinu. Óheft aðgengi að Reykjavíkurflugvelli er sagt lífsnauðsynlegt fyrir sjúkraflug og óásættanlegt að öryggi og aðgengi landsbyggðarinnar sé stefnt í voða vegna tregðu borgarinnar við að fækka trjám.
Sveitarstjórnin fagnar því að byrjað sé að fella trén og skorað á Samgöngustofu að fullnýta allar lagaheimildir til að tryggja opnun á flugvellinum. Krafa er gerð á samgönguráðherra og ríkisstjórnina að ganga tafarlaust í málið. Áður hafði byggðaráð samþykkt bókun þar sem sveitarstjóra var falið að koma áhyggjum sveitarfélagsins á framfæri við þingmenn kjördæmisins og þeir hvattir til að beita sér fyrir hönd íbúa sinna.
Brýnir hagsmunir í húfi
Á fundi sínum í gær ítrekaði bæjarráð Fjarðabyggðar áskorun sína til borgarinnar, stjórnvalda og Isavia um að tryggja rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar sem fyrst. Þar segir að brýnir hagsmunir séu í húfi þar sem um 630-650 sjúklingar séu fluttir á Landspítalann árlega með sjúkraflugi. Takmarkanir á því dragi úr lífslíkum eða batahorfum fjölda sjúklinga.
Bæjarráð hvetur því málsaðila til að leita allra leiða til úrbóta, í þágu jafns aðgangs allra landsmanna að heilbrigðisþjónustu, eins og kveðið er á um í lögum og hefjast handa við það nú þegar.
Óþægindi í innanlandsflugi
Til viðbótar við sjúkraflugið þá hefur lokunin áhrif á innanlandsflug. Samkvæmt heimildum Austurfréttar hafa flugstjórar hjá Icelandair beðið farþega afsökunar á ókyrrð við lendingu þegar lent er í miklum hliðarvindi.
Slíkar aðstæður má sjá í meðfylgjandi myndbandi sem Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, birti á Facebook-síðu sinni. Að hans beiðni var staða sjúkraflugs rædd á fyrsta fundi nýrrar velferðarnefndar Alþingis í síðustu viku.