TF-FXA komin aftur á loft

TF-FXA, önnur af tveimur Bombardier Q400 flugvélum Icelandair, er komin á ný inn í leiðarkerfi félagsins í flugi innanlands og til Grænlands.

TF-FXA hóf sig til flugs til Kulusuk á Grænlandi frá Reykjavíkurflugvelli upp úr klukkan hálf tólf, rúmum klukkutíma en áætlað var, samkvæmt upplýsingum frá vefnum Flightradar. Vélin á síðan að fara til Akureyrar þegar hún kemur úr Grænlandsfluginu.

Með þessu má vonast til þess að flugáætlun Icelandair innanlands fari á ný að komast í samt lag. Gríðarlegar raskanir hafa verið á fluginu síðustu tvær vikur vegna tæknilegra vandamála í flugvélunum.

Icelandair á tvær Q400 vélar sem eru 76 sæta hvor. Í fjarveru TF-FXA hefur hin, TF-FXI, þurft að fljúga tvöfalda áætlun. Hefur vélin þá gjarnan farið fyrst til Akureyrar, síðan til Egilsstaða. Morgunflug TF-FXI til og frá Egilsstöðum í morgun var tveimur tímum á eftir áætlun. Flugið norður var á áætlun.

Að auki á Icelandair þrjár 37 sæta Bombardier Q200 vélar. Ein þeirra véla hefur verið í viðhaldi erlendis undanfarinn mánuð. Þegar verst lét í síðustu viku voru aðeins tvær af fimm vélum, ein lítil og önnur stór, flughæfar.

Nú eru þær orðnar fjórar en um tíu dagar eru enn í að ein minni vélanna skili sér heim úr viðhaldi. Forsvarsfólk Icelandair hefur varað við að á meðan sé leiðakerfið brothætt.

Félagið hefur undanfarna daga tekið þrjár þotur á leigu til að bregðast við ástandi á flugvöllum og flugheiminum erlendis til að geta haldið áætlunum.

TF-FXI á Egilsstaðaflugvelli í maí. 


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.