„Þetta er stór stund í sögu náttúruverndar á Íslandi“

Á laugardaginn síðastliðinn friðlýsti Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra Gerpissvæðið milli Norðfjarðar og Reyðarfjarðar. Vinna við friðlýsinguna hófst árið 2019 og að henni stóðu, auk ráðuneytisins, Fjarðabyggð, Umhverfisstofnun og landeigendur á svæðinu.

Friðlýsingin er fremur mild og engin breyting verður á veiði og beit á svæðinu auk þess sem sumir landeigendur ákváðu að standa utan friðlýsingarinnar. Hið friðlýsta svæði er 121,24 km2 og hafa því alls 176 km2 verið friðlýstir á Austurlandi í ár en í sumar var Stórurð friðlýst.

 

Alaskalúpínan helsta ógnin
Á fyrri hluta 20. aldar var töluverð byggð á Gerpissvæðinu og þaðan stunduð sjósókn en byggðin þar lagðist í eyði um miðja öldina. Svæðið var tilnefnt á náttúruverndaráætlun 2009-2013 sem þáverandi umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, mælti fyrir á Alþingi. Svæðið var þá sett í hóp „plöntusvæða“ og rökstuðningur fyrir friðlýsingunni var eftirfarandi: „Á Gerpissvæðinu er sérstætt gróðurfar, en á svæðinu finnast allnokkrar sjaldgæfar háplöntutegundir eins og fjöllaufungur, lensutungljurt, sóldögg, álftalaukur, mýraberjalyng, bjöllulilja, sifjarsóley o.fl. Svæðið er vinsælt til útivistar.“ Í áætluninni sagði að helsta ógnin við svæðið væri notkun framandi plantna. „Notkun framandi og ágengra plöntutegunda ógnar svæðinu, t.d. hefur alaskalúpínu verið sáð/plantað í Víkurskarði og Vaðlavík. Uppbygging frístundahúsa á eyðijörðum er óskipulögð.“ Svæðið sem þá var til meðferðar var nokkuð stærra en friðlýst var síðastliðinn laugardag eða 157 km2.

 

Elsta eldstöð Austfjarða
Forsendur friðlýsingarinnar voru þær sömu í ár og fyrir um áratug síðan en plöntur eins og: stinnasef, skógelfting og lyngbúi sem er að finna á svæðinu eru á válista æðplantna sem gerður var af Náttúrufræðistofnun Íslands árið 2018. Þá gaf ráðuneytið einnig út að verndargildi svæðisins væri hátt vegna jarðminja, landslags, menningarsögu, útivistar og fuglalífs. Varðandi fuglalíf er Seley þar mikilvægust en lundabyggð er á eynni auk æðarvarps og þá er eyjan eina þekkta varpland helsingja á Austurlandi.


„Barðsneseldstöðin er elsta eldstöð Austfjarða og var virk fyrir 12-13 milljónum ára. Á norðaustanverðu Barðsnesi er þykk lagskipt gjóska þar sem er að finna kolaða trjástofna í uppréttri stöðu, og eru það elstu gróðurleifar á Austurlandi. Náttúruvættið Helgustaðanáma er á Helgustaðajörðinni og líklega er að finna kalsít á fleiri stöðum á jörðinni,“ segir í friðlýsingarskilmálunum.

 

Bæjarstjórinn ánægður með þá leið sem var farin
„Þetta er stór stund í sögu náttúruverndar á Íslandi. Gerpissvæðið er stórbrotið svæði, með fugla- og plöntulífi, minjum og merku landslagi sem mikilvægt er að varðveita. Ég óska Austfirðingum og Íslendingum öllum til hamingju með þessa friðlýsingu, en með henni höfum við tekið ákvörðun um að vernda þetta svæði um ókomna tíð,“ sagði Guðmundur Ingi við friðlýsinguna á laugardaginn.


Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segist ánægður með þá leið sem var farin. „Það er ánægjulegt að þessi vinna sem farið var í við friðlýsingu Gerpissvæðisins sé nú lokið með þessum áfanga. Bæjarstjórn Fjarðabyggðar hefur verið sammála um þá nálgun sem farið var í þar sem þeir landeigendur sem vildu fara með sínar jarðir í friðlýsingu gætu það og þeir sem utan hennar vildu standa gætu slíkt. […] Þá opnar friðlýsingin ýmsa möguleika fyrir þessa einstöku náttúruperlu okkar til framtíðar ásamt því að hefðbundin nýting eins og veiði og beit verður óbreytt.“

 

„Réttur bænda til nýtingar afrétta, sauðfjárbeitar og smölunar helst óbreyttur“
Segja má að friðlýsingin sé fremur mild rétt eins og orð Jóns Björns bera merki um. Ekki tóku allir landeigendur þátt í henni og fyrir vikið er friðlýst um 121,24 km2 en ekki 157 km2 eins og upphaflega stóð til. Helsta áherslan verður lögð á plönturíkið. „Óheimilt er að spilla gróðri eða trufla dýralíf af ásetningi innan verndarsvæðisins hvort sem er á landi, í ferskvatni eða í sjó. [...] Óheimilt er að sleppa eða dreifa framandi lífverum á verndarsvæðinu, þ.m.t. að rækta framandi plöntutegundir [...] Undanskilið banninu eru svæði innan 150 m fjarlægðar frá húsum landeigenda. Landeigendur skulu tryggja að útlendar plöntutegundir berist ekki út fyrir skilgreindu svæðin. Unnið skal að því að fjarlægja framandi tegundir plantna og/eða dýr á landi sem hafa verið flutt inn á svæðið eða berast inn á það. Ákvæðið á ekki við um hreindýr,“ segir í friðlýsingarskilmálunum.


Undantekning er á ákvæði um óheimilt sé að trufla dýralíf svæðisins. „Veiðar eru heimilar á svæðinu í samræmi við ákvæði laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Um nýtingu og vernd nytjastofna sjávar fer samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða og í vötnum í samræmi við ákvæði laga um lax- og silungsveiði. Veiðar á ref eru heimilar skv. almennum reglum þar um. Stefnt skal að útrýmingu minks,“ segir í skilmálunum, eða með öðrum orðum; veiðar eru heimilar og haldast óbreyttar.


Þá eru ýmis ákvæði um verndun í friðlýsingarskilmálunum: „Varðveita skal einkenni og sérkenni landslags svæðisins. Óheimilt er að valda spjöllum á landslagi svæðisins. Framkvæmdir skulu ekki hafa afgerandi áhrif á ásýnd svæðisins og mannvirki skulu falla sem best að svipmóti lands [...] Allt rask á jarðminjum er óheimilt innan verndarsvæðisins nema með sérstöku leyfi [...] Efnistaka er aðeins heimil á skilgreindum svæðum innan friðlýsta svæðisins. Efni skal aðeins nota innan svæðisins. Efnistaka úr sjó í Viðfirði og Hellisfirði er óheimil [...] Óheimilt er að raska kóralþörungum í sjó innan friðlýsta svæðisins.“
Það ákvæði sem stingur hvað mest í stúf miðað við forsendur friðlýsingarinnar um að vernda sjaldgæfar plöntur svæðisins er ákvæði um sauðfjárbeit. „Réttur bænda til nýtingar afrétta, sauðfjárbeitar og smölunar helst óbreyttur,“ segir í skilmálunum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.