Orkumálinn 2024

Þjóðlegur matur nýtur ekki alltaf sannmælis

Norðurlöndin eiga margvísleg tækifæri með ímynd hreinleika og afslöppunar til að sækja á matarferðalanga. Þau hafa náð langt í markaðssetningu sem mataráfangastaða en eiga mikið inni enn.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu á vegum verkefnisins Nordic Food in Tourism. Brynja Laxdal, verkefnastjóri, fór yfir fyrstu niðurstöður hennar við upphaf ráðstefnu verkefnisins á Egilsstöðum í morgun.

Ráðgjafafyrirtækið Kairos Future var fengið til að halda utan um rannsóknirnar. Reynt var greina bæði strauma í umræðu, kallaðir til sérfræðingar og lögð fyrir spurningakönnun. Í henni tóku 34.000 manns þátt frá 34 löndum á fimm tungumálum.

Meðal annars var reynt að skilja hvernig heimurinn horfir á norrænan mat og tengsl sjálfbærni við ferðamennsku og staðbundinn mat. Í ljós kom að Norðurlöndin hafa ímynd hreinleika og vellíðunar og talsverður er á að upplifa norræna lifnaðarhætti.

Árið 2004 var mörkuð stefna um nýja norræna eldhúsið, að nota staðbundin hráefni, sem virðist hafa náð ágætri fótfestu. Áfram má þó halda.

Könnunin sýndi að íbúar Norðurlandanna kunna vel við sínar matarhefðir en ekki endilega nágranna sinna. Þannig er íslenski hákarlinn talinn skrýtinn, jafnvel ógeðslegur. „Hefðbundinn matur nýtur ekki alltaf sannmælis. Ef við ætlum að styrkja okkar matarhefð þurfum við að tala jákvæðar um hann. Af hverju við borðum hann í fyrsta lagi og hvernig hann hefur hjálpað forfeðrum okkar til að lifa af. Matarhefðunum höldum við meðal annars á lífi í gegnum matarferðamennsku,“ sagði Brynja.

Í skýrslunni er leitast eftir að greina hvaða straumar verði ríkjandi í matarferðamennsku á næstu árum og seljendur vöru og þjónustu geti nýtt sér þá. Meðal annars var lögð áherslu á samvinnu, þegar mismunandi matur eða matur og framleiðslu- eða listgreinar væru tengdar saman fengist spennandi útkoma.

Þá var lögð áhersla á sjálfbærni og heilnæmi þar sem líklegt sé að viðskiptavinir framtíðarinnar séu meðvitaðri um hvað þeir leggja sér til munns.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.