Skip to main content
Mynd úr safni.

Þörf á að ráðast reglulega í aðgerðir gegn bílakirkjugörðum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. okt 2025 17:52Uppfært 15. okt 2025 17:53

Sveitarfélagið Fjarðabyggð hefur að undanförnu unnið að því að fjarlægja númerslausa bíla sem hafa safnast upp innan byggðakjarna þess. Formaður bæjarráðs segir hvimleitt að þurfa reglulega að ráðast í slíkar aðgerðir.

„Það virðist vera þannig að þegar einn númerslaus bíll skýtur upp kollinum á bílastæði í íbúahverfi þá er stutt í að þeim fjölgi. Þess vegna þurfum við reglulega að fara í svona átak, sem er hvimleitt.

Það virðist sem það séu ákveðnir staðir í öllum byggðakjörnum þar sem bílar safnast upp svo úr verða eins konar bílakirkjugarðar,“ segir Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar.

Kvartanir úr öllum kjörnum

Hann segir að íbúar séu ekki hrifnir af því þegar númerslausir bílar fara að hrannast upp inni í íbúahverfum, en áherslan hjá Fjarðabyggð hefur verið á hreinsun í þeim. „Ég veit ekki hversu mörg formleg erindi eru send á skrifstofu sveitarfélagsins en við bæjarfulltrúar fáum reglulega kvartanir úr öllum byggðakjörnum.

Það vilja allir íbúar hverfisins að gengið sé sómasamlega um og þegar einn safnar ónýtum bílum á lóð sína fer það fyrir brjóstið á fólkinu í kring sem er að reyna að fegra umhverfi sitt.“

Geta farið inn á einkalóðir

Ragnar segir að reynt sé að leysa málin í samvinnu við bíleigendur og það takist yfirleitt á jákvæðum nótum. Sumir bregðist verr við, telji jafnvel að gengið sé á eignarétt þeirra og þeir hafi heimild til að leggja hvar sem er. Það sé rangt því sveitarfélagið eigi bílastæðin eða landið sem bílunum er lagt á.

Sveitarfélagið hefur lítið farið inn á einkalóðir því þar eru heimildir þess takmarkaðri. Það getur þó gripið til aðgerða ef bílhræin eru farin að valda einhvers konar hættu eða mengun. Um slíkt eru þó fá dæmi.

Stundum erfitt að hafa uppi á eigendum

Fjarðabyggð stendur á hverju ári fyrir hreingerningarátakinu „Vor í Fjarðabyggð“ og hefur í gegnum það boðið fólki aðstoð við að farga bílum. Utan þess tíma er reynt að höfða til samvisku bíleigendanna. En það getur verið flókið að hafa uppi á þeim og fylgja málunum eftir.

„Við viljum helst að eigendur bíla sjái sóma sinn í að fjarlægja bíla sem verða notaðir meir. Ef ekkert er að gert geta málin orðið erfið. Íbúar flytja jafnvel í burtu, það verður erfitt að ná í þá eða finna út hver raunverulegur eigandi er. 

Við hvetjum eigendur ýmist til að koma bílunum á númer eða fara með þá í förgun. Við erum með aðvaranir sem við límum á bílana, skráum þá niður og sendum upplýsingar til Heilbrigðiseftirlits Austurlands, sem heldur utan um þær. Eftir ákveðinn tíma er hægt að farga bílunum á kostnað eigendanna. En þetta er langur og strangur ferill og mikill kostnaður sem fer í að eltast við þessi mál.“