Þrír kafarar varðskipsins Þór undirbúa köfun á Stöðvarfirði
Þrír kafarar af varðskipinu Þór eru nú að undirbúa sig fyrir köfun niður að bátnum Drangi á Stöðvarfirði. Þetta segir Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar. Varðskipið Þór mun halda sig á Stöðvarfirði í allan dag og jafnvel lengur.Eins og fram hefur komið í fréttum sökk Drangur í Stöðvarfjarðarhöfn í morgun. Varðskipið Þór var statt á Fáskrúðsfirði þegar óhappið var tilkynnt. Léttbátur með mönnum frá Þór hélt þá strax til Stöðvarfjarðar og Þór hélt á eftir. Kom varðskipið á vettvang skömmu fyrir kl. 11.
„Kafararnir munu meta ástand bátsins og þær skemmdir sem hugsanlega hafa orðið á honum, auk þess að reyna að stöðva oliulekann,“ segir Ásgeir.
Ásgeir segir einnig að þeir menn sem fóru með léttbátnum hafa verið að aðstoða björgunarsveitir við mengunarvarnir í kringum Drang frá því þeir komu fyrr í morgun. Þeir fengu m.a. búnað til þess frá Reyðarfirði.
Björgunarsveitir frá Fáskrúðsfirði og Breiðdalsvík auk slökkviliðs og hafnarstarfsmanna hafa sett út mengunarvarnagirðingar og tekist hefur að koma í veg fyrir að olíuleiki berist frá bátnum.