Þrjú sveitarfélög hafa samþykkt að hefja formlegar viðræður um sameiningu
Fljótsdalshérað, Seyðisfjarðarkaupstaður og Borgarfjarðarhreppur hafa samþykkt að fara í formlegar sameiningarviðræður og Djúpavogshreppur tekur ákvörðun síðar í dag. Gangi viðræðurnar að óskum verður kosið um sameiningu þeirra fyrir lok árs 2019.Hreppsnefnd Borgarfjarðarhrepps samþykkti að hefja formlegar viðræður á mánudag og bæjarstjórnir Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðar í gær. Sveitarstjórn Djúpavogshrepps tekur afstöðu til viðræðna á fundi sínum síðar í dag.
Þreifingar um viðræður fóru af stað síðasta vetur að frumkvæði Fljótsdalshéraðs og skiluðu sér í könnun meðal íbúa um hug þeirra til sameiningar. Íbúar þessara fjögurra sveitarfélaga sýndu áhuga á sameiningu en íbúar í Fljótsdal og á Vopnafirði ekki.
„Það var þroskandi og gefandi að eiga þetta samtal. Við vorum pínulítið út og suður til að byrja með en það náðist hreinskiptin umræða um stöðuna í hverju sveitarfélagi fyrir sig.
Markmiðin sem við vildum ná lágu nokkuð ljós fyrir og þau voru óskaplega lík þegar uppi var staðið,“ sagði Gunnar Jónsson, bæjarfulltrúi á Fljótsdalshéraði í gær, en hann leiddi viðræðuhópinn síðasta vetur.
„Vonandi ber okkur gæfa til að sameinast“
Bæjarfulltrúar á Fljótsdalshéraði fögnuðu áfanganum á fundinum í gær. Hvatinn að viðræðunum er von um að sameining leiði til bættrar þjónustu, öflugri stjórnsýslu og auknum líkum á að ná fram áherslum í byggða- og samgöngumálum sem lengi hefur verið þrýst á um. „Vonandi ber okkur gæfa til að sameinast og standa eftir styrkari fótum,“ sagði bæjarfulltrúinn Björg Björnsdóttir.
Anna Alexandersdóttir, formaður bæjarráðs, sagðist helst hafa viljað hafa sveitarfélögin öll sem boðuð voru til upprunalegu viðræðnanna. Ekki væri lokað á hin tvö ef þeim snérist hugur.
Óformlegar viðræður hafa staðið yfir síðustu vikur sem skiluðu sér í tillögu sem lögð var fyrir sveitarstjórnirnar fjórar nú í vikunni. Samkvæmt henni verður skipuð samstarfsnefnd, sem hvert sveitarfélag skipar þrjá fulltrúa í, að skila niðurstöðum til sveitarfélaganna fyrir lok árs 2019. Nefndin hefur hins svigrúm til að endurskoða tímarammann ef þurfa þykir. Þegar niðurstöður liggja fyrir kjósa íbúar um sameiningu.
Vinnan verður að vera skotheld
Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar á Fljótsdalshéraði, lagði mikla áherslu á að vandað yrði til verka. „Ég hef mikla trú á að sameining geti verið gæfuspor. Öll sveitarfélögin hafa unnið í sínum málum þannig eftir er tekið á landsvísu og hafa eitthvað fram að færa sem nýst getur nýju sveitarfélagi.
Það er mikilvægt að íbúar geti treyst því að niðurstöðurnar byggi ekki fyrirframgefnum forsendum. Að sannarlega hafi verið unnin sú vinna sem þarf til að greina framtíðarsýnina.
Ef það útheimtir meiri tíma eða peninga verður að kosta þeim til. Við skuldum okkar íbúum að vinna þetta þannig að þetta sé skothelt. Við verðum að tryggja að allir sem fylgjast með þessu ferli hafi þá trú að þeir hafi fengið allar upplýsingar sem þeir þurfa til að taka upplýsta ákvörðun.
Meðal þess sem við þurfum að skoða í vinnunni er hvers vegna íbúa í sumum sveitarfélögum eru ósáttir, hvernig við getum komið til móts við þær gagnrýniraddir, hvernig kostirnir komi sem skýrast fram og hvernig við lágmörkum neikvæð áhrif.“
Bæjarráð Fljótsdalshéraðs mun skipa fulltrúa í nefndina á fundi sínum næsta mánudag. Fulltrúi sveitarfélagsins mun kalla nefndina saman til fyrsta fundar. Fulltrúar Seyðisfjarðarkaupstaðar verða Elvar Snær Kristjánsson, Eygló Björg Jóhannsdóttir og Hildur Þórisdóttir.