„Þurfum öll á okkar ævintýri að halda í lífinu“

Nýtt fimmtán herbergja gistihús var í sumar tekið í notkun á Óbyggðasetri Íslands í Fljótsdal. Miklar framkvæmdir hafa verið þar síðustu ár því í fyrra var endurbyggt baðhús sem brann um vorið.

„Það er kannski alltaf praktískt að vera ekki við þjóðveg 1, en við fáum réttu gestina sem gefa sér tíma til að fara út fyrir Hringveginn. Við fáum líka rétta starfsfólkið sem tekur þátt í að skapa upplifunina,“ segir Steingrímur Karlsson eða Denni sem stýrir Óbyggðasetrinu í þættinum Að austan sem sýndur var á N4 í gærkvöldi.

Setrið er bæði safn og gististaður en frá upphafi hefur verið lögð áhersla halda í þjóðlegan íslenskan stíl í allri hönnun. Í þeim anda er nýja gistihúsið með 15 herbergjum sem öll eru með sérbaðherbergi.

„Við þurfum öll á okkar ævintýri að halda í lífinu. Við viljum hrífast af einhverju og upplifa eitthvað. Það reynum við að framkalla hér. Við viljum þó ekki að staðurinn sé of stór til að halda rólegheitunum og nándinni við náttúruna.“

Eldsvoðinn í baðhúsinu varð í apríl í fyrra en það var byggt upp og komið í rekstur á ný um miðjan júlí. Líkt og með aðrar byggingar á svæðinu er ekki að sjá að húsið sé aðeins árs gamalt.

„Ég var að koma úr gönguskíðaferð en starfsmaður var kominn á undan mér og sá mökkinn. Nágrannarnir stukku til og hjálpuðu til. Ég var úti í lauginni, fyllti á fötur og rétti áfram.

Síðan sprakk glugginn og það myndaðist svokallað „backdraft.“ Það kom hljóð eins og úr skrímsli, síðan kom 20 metra eldveggur út úr húsinu og yfir laugina. Ég sting mér á bólakaf og kem sviðinn upp aftur.“

Með tilkomu nýja hússins er starfsemi setursins orðin á heilsársgrundvelli. „Það skapar störf í dalnum sem er mjög ánægjulegt.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.