Skip to main content
Öll sveitarstjórn Múlaþings í útivistargöngu fyrir nokkru. Þar eru fleiri fulltrúar en gengur og gerist annars staðar að sögn eins þeirra. Mynd Múlaþing

Tillaga um fækkun kjörinna fulltrúa felld hjá sveitarstjórn Múlaþings

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. okt 2025 14:58Uppfært 22. okt 2025 14:58

Þrátt fyrir allnokkrar umræður meðal sveitarstjórnarfulltrúa Múlaþings á síðasta sveitarstjórnarfundi varðandi þá tillögu að fækka beri kjörnum fulltrúum varð niðurstaðan sú að tillagan var felld að sinni.

Það var Þröstur Jónsson, Miðflokki, sem vakti máls á því síðastliðið vor að fjöldi sveitarstjórnarfulltrúa Múlaþings, alls ellefu talsins, væri ívið meiri en gengur og gerist í sveitarfélögum af sambærilegri stærð. Taldi hann eðlilegt, ekki síst með tilliti til bágrar fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og þess að mestallri vinnu varðandi sameiningu hreppanna fjögurra í Múlaþing á sínum tíma væri nú lokið, að fækka ætti fulltrúunum niður í níu eða jafnvel sjö talsins.

Samþykkt var í byggðaráði Múlaþings á þeim tíma að láta fara fram úttekt á þessu sem KPMG gerði en sitt sýndist hverjum um niðurstöður þeirra og stór meirihluti ráðsins mælti með við sveitarstjórn að fella tillöguna í kjölfarið.

Um þetta urðu svo töluverðar umræður á síðasta sveitarstjórnarfundi Múlaþings í síðustu viku. Tók sú umræða rétt tæpar 30 mínútur fundinum sem stóð í klukkustund og þrettán mínútur.

Fleiri betri en færri

Ásrún Mjöll Stefánsdóttir, VG, taldi hugmyndina slæma því ekkert væri jákvætt við að enn færri kæmu að stórum ákvörðunum sem alla íbúa snertu í ráðum á borð við byggðaráð.

„Ég held að það sé mikilvægt að þar komu breiður hópur að. Við erum mjög ólík hvað kjarnana varðar. Til að tryggja góða yfirsýn og ákvarðanatöku þarf breiðan hóp fulltrúa og svo er það þetta aukna álag á þá sem sitja þá eftir. Slíkt getur gert sveitarstjórnarstörfin erfiðari og ekki hvað síst hjá fólki sem þarf að samræma þá vinnu við önnur störf. Þetta hefur kynjapólitísk áhrif eins og fram kom í minnisblaði KPMG en rannsóknir sýna að konur sérstaklega sjá sér síður fært að taka þátt [ef álag er mikið] og af þessum ástæðum tel ég mikilvægt að við bíðum með þetta.“

Undir þetta tók samflokksmaður hennar, Helgi Hlynur Ásgrímsson, sem benti á að honum finndist nú þegar allmargir fulltrúar vera með of marga hatta í hinum og þessum ráðum Múlaþings. Fækkun fulltrúa myndi gera illt verra í því tilliti. „Forseti vor [Jónína Brynjólfsdóttir] þarf bara að hafa hattastafla með sér og velja hvað hatt hún hefur á höfði í hvert og hvert sinn. Samt erum við ellefu talsins.“

Ekki rétti tíminn

Tveir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins voru í grunninn sammála því að fækka þyrfti sveitarstjórnarfulltrúum en að að þeim tímapunkti væri ekki komið. Annar þeirra, Ívar Karl Hafliðason, taldi jafnvel að þetta tengdist kosningarskjálfta nú þegar sveitarstjórnarkosningar fara fram að sex mánuðum liðnum.

„Það er hins vegar svo að heimastjórnirnar er eitthvað sem við gætum þurft að endurskoða á næsta kjörtímabili. Það eru mjög mörg hlutverk sem kjörnir fulltrúar þurfa að hafa. Það er ekki nóg með formennsku, nefndarsetu eða aðrar stjórnir eða ráð. Svo bætast við fjórir fulltrúar í heimastjórnirnar. Ef við ætlum að fara úr ellefu í níu þá er fólk í sveitarstjórn komið í þá stöðu að þurfa að vera með mjög marga hatta og þá er spurningin hvort við teljum það eitthvað betra. Maður veltir líka fyrir sér hvort við þurfum að taka þetta allt til endurskoðunar á næsta kjörtímabili með tilliti til hugsanlegra sameininga sveitarfélaga. En ég get líka sagt að mér fannst við fyrstu sýn það vera no-brainer [engin spurning] að fara í fækkun. Það er ákveðinn kostnaður sem fylgir því að vera með fleiri fulltrúa. En svo er spurning hvort meiri kostnaður færi þá ekki bara í meiri fundarsetu [færri fulltrúa.]“

Takk fyrir hugleysið 

Þröstur Jónsson var miður sáttur við dræmar undirtektirnar:

„Mér finnst dálítið lýsandi fyrir meirihlutann að vera fylgjandi fækkun sveitarstjórnarfulltrúa en samt ekki fylgjandi fækkun sveitarstjórnarfulltrúa. Í hvora löppina ætla menn að stíga? Takk fyrir hugleysið, takk fyrir ákvarðanafælnina. Þetta verður nákvæmlega eins á næsta kjörtímabili ef þetta verður rætt aftur. Það verður þá varla tímabært og eitthvað annað sem hefur þá áhrif en nú. Hvað er svona ægilega sérstakt við þetta sveitarfélag að við þurfum að vera hið eina, ef ég fer með rétt mál, á þessu stærðarbili sem þarf að vera með fjölda sveitarstjórnarfulltrúa í toppi?“