Tímamót í vísindastarfi á Austurlandi

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Breiðdalsvík var formlega opnað í gær. Viðstaddir sögðu opnunina marka tímamót í jarðvísindum á Austurlandi. Tveir starfsmenn eru komnir til starfa við setrið.

„Þetta setur endurspeglar framlag Breiðdals til vísindanna,“ sagði Tobias Björn Weisenberg, nýráðinn forstöðumaður safnsins. Með honum mun starfa María Helga Guðmundsdóttir verkefnastjóri, en hún verður í hlutastarfi hjá Náttúrufræðistofnun Íslands sem umsjónarmaður Borkjarnasafns Íslands.

Rannsóknasetrið tekur í raun við af Breiðdalssetri, sem stofnað var árið 2010 utan um arfleið George Walker, sem var brautryðjandi í rannsóknum á jarðfræði og eldstöðum Austurlands og málvísindamannsins Stefáns Einarssonar.

Herbergi tileinkuð þeim eru enn í Gamla Kaupfélaginu á Breiðdalsvík, þar sem setrið er til húsa, en í gær var jafnframt opnuð ný sumarsýning þar sem fræðast má um jarðfræði Íslands og Austurlands. „Við erum stolt af að fylgja í fótspor Walkers sem átti mikið vísindalegt framlag til aukins skilnings á svæðinu.“

Verið að kortleggja jarðfræði Austurlands

Birgir Vilhelm Óskarsson, jarðfræðingur frá Náttúrufræðistofnun, sagði daginn marka tímamót fyrir jarðvísindi á Austurlandi og að miklu máli skipti fyrir stofnunina að hafa nú starfsmann á svæðinu.

Hann færði setrinu innrammað jarðfræðikort af Austurlandi að gjöf við athöfnina. „Við höfum unnið mikið síðustu tíu ár hér við kortlagningu jarðfræði. Við kláruðum Austurlandskortið árið 2019, erum nú að vinna á Norðausturlandi og förum síðan á Suðausturland.“

Ánægjulegt að fylgjast með uppbyggingunni

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, sagði það hafa verið ánægjulegt að fylgjast með uppbyggingu jarðfræðirannsókna á Breiðdalsvík, fyrst með Breiðdalssetri, síðan Borkjarnasafninu og nú rannsóknasetrinu. Hún hrósaði sérstaklega Hákoni Hanssyni, fyrrum oddvita Breiðdalshrepps og stjórnarmanni Breiðdalssetur fyrir ötulla vinnu við að fá ólíka einstaklinga og stofnanir að borðinu við að byggja upp setrið.

„Þetta hefur verið dæmi um hvernig góðir hlutir gerast hægt en örugglega. Ekkert af þessu hefði þó orðið án tengsla Hákons. Ég óska ykkur til hamingju með þennan áfanga og er sannfærð um að við tökum fleiri skref til að byggja utan um þetta fræðastarf.“

Mikilvægt að skoða yngri jarðlögin

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands og fyrrum stjórnarmaður Breiðdalsseturs, sagði að innan jarðfræðideildar og Jarðfræðistofnunar skólans væri tilhlökkun fyrir samstarfinu við nýja rannsóknasetrið og ríkir vilji til að styðja við það.

Hann sagði rannsóknir á Austurlandi mikilvægar til að veita nánari upplýsingar um jarðfræðisögu Íslands. „Ég vona að við eigum hér saman skemmtilegar stundir, einkum við að skoða eldri jarðfræðihluta Íslands því við höfum horft alltof mikið á yngri hlutann.“



Birgir, Tobias og María Helga með gjöf Náttúrufræðistofnunar til Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Breiðdalsvík.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.