Orkumálinn 2024

Tíminn núna til að marka stefnu um framtíð Egilsstaðaflugvallar

Framkvæmdastjóri Austurbrúar segir mikilvægt að stjórnvöld veiti skýr svör um hvernig þau hyggist liðka fyrir því að hægt verði að byggja upp alþjóðaflug um Egilsstaðaflugvöll. Tækifæri séu nú bæði í ferðamennsku og fraktflutningum.

„Við höfum verið að kalla eftir aukinni áherslu á þróun og uppbyggingu Egilsstaðaflugvöllinn. Tækifærin eru fjölmörg, bæði í auknum ferðavilja erlendra ferðamanna til Íslands sem og farmflugi um völlinn.

Við teljum tíma nú til að marka stefnu um hvernig Egilsstaðaflugvöllum þjónar sem best, bæði Austurlandi og atvinnulífinu hér sem og Íslandi í heild sinni,“ segir Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar.

Hún bendir á að í bæði samgönguáætlun og nýrri flugstefnu hafi verið stigin skref í eflingu flugvallarins, meðal annars með skilgreiningu hans sem fyrsta varaflugvallar fyrir Keflavík. Nú sé mikilvægt að halda áfram og útfæra aðgerðir.

Í sumar var lagt nýtt malbik á flugbrautina sem Jóna Árný segir hafa verið mikilvægt til að geta þjónað farþegaflugvélum að ákveðinni stærð. Einnig hefur verið talað um að byggja upp akbraut meðfram meginflugbrautinni sem skipti máli upp á varaflugvöllinn. Fyrir fraktflugið þurfi bæði tæki og húsbúnað auk þess sem trúlega þurfi að lengja flugbrautina. Það velti eftir hvers konar vélar verði notaðar og hvert þær fari. Þá er sú staðreynd að eldsneytisverð er hærra á Akureyri og Egilsstöðum en í Keflavík hindrun þegar rætt er við erlend flugvélög.

Slagkraftur í samvinnu á stærra svæði

Fyrir nokkrum árum var Flugþróunarsjóður stofnaður til að efla millilandaflug um aðra velli en Keflavík. Í vor bárust fréttir af því að til stæði að draga úr þeim framlögum sem Austurbrú og Markaðsstofu Norðurlands var veitt til að vinna að markaðssetningu vallanna á Akureyri og Egilsstöðum. Dregið var úr þeirri lækkun eftir athugasemdir.

Á móti var gerður þriggja samningur milli landshlutaskrifstofanna tveggja, Isavia og Íslandsstofu til að markaðssetja flugvellina tvo, en áður hafði aðeins verið úthlutað úr Flugþróunarsjóði frá ári til árs. Spurningar vakna, einkum meðal Austfirðinga, hver staða fjórðungsins sé inni í slíku samstarfi gegn sterku Akureyrarsvæðinu.

„Beint flug frá Akureyri mun nýtast Austurlandi vel og öfugt,“ segir Jóna Árný. „Í þessu sameiginlega verkefni erum við að kynna svæðið frá Siglufirði til Skaftárhrepps sem ákjósanlegt svæði fyrir flugfélög til að fljúga inn á.

Flugþróunarsjóður skiptir máli en það er fleira sem þarf að horfa til, til dæmis sýnileiki vallanna í samanburði við Keflavík. Að fá inn stórt flugfélag er mikið verk og það eykur möguleikana að draga inn heildarstyrkleika þessa svæðis. Landshlutarnir í samvinnu við Isavia eru til dæmis að undirbúa að fara saman á stóra áfangastaðasýningu í byrjun október. Í svona stórum málum skiptir samstarfið miklu máli þannig við megum ekki skipta okkur of mikið upp. Á endanum eru það flugfélögin sem velja hvert þau fljúga.“

Flugfélög horfa til nýrra áfangastaða

Fáar atvinnugreinar urðu fyrir jafn miklum skakkaföllum í Covid-faraldrinum og flugheimurinn sem enn á langt í land með að ná fyrri styrk. Eru flugfélög í stakk búinn að láta reyna á nýja áfangastaði eða er líklegra að þau treysti á fjölmennustu leiðirnar?

„Auðvitað breyttist flugheimurinn því þetta var erfiður tími. En það felast tækifæri í því þegar hann fer af stað eftir faraldurinn því möguleikar eru á öðrum forsendum en áður, til dæmis meiri dreifingu ferðamanna en áður. Tækifæri Austurlands eru meðal annars mikil víðátta.

Það hefur verið mikill ferðavilji til Íslands eins og sá fjöldi félaga sem flaug til Keflavíkur í sumar sýnir. Þegar flugfélögin reisa sig við eru líkur að það verði mikil samkeppni á aðalleiðum og þá fara verði hratt niður. Þá skoða þau nýja áfangastaði.

Þá skiptir máli að þar séu góðir innviðir, fjölbreytt afþreying og öflug umgjörð. Við erum bjartsýn á að áfangastaðurinn Austurland veki athygli en þegar öllu er á botninn hvoft erum við í samkeppni við aðra staði í sömu hugleiðingum.

En miðað við fjölda fluga til Keflavík á Ísland mikið inni og því skiptir máli að grípa tækifærið og styðja við það á allan hátt að fá flug inn á fleiri svæði. Það ætti að vera hagur allra landsmanna að kynna möguleikann á flugi til Egilsstaða því það myndi skjóta styrkari stoðum undir atvinnulífið á fleiri stöðum á landinu.“

Ferðaskrifstofan Discover the World flaug beint milli Egilsstaða og Englands sumarið 2016.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.