Skip to main content

Tinna Adventure á Breiðdalsvík hlaut æðstu ferðaþjónustuverðlaun Austurlands

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. des 2024 14:09Uppfært 04. des 2024 14:13

Hjónakornin Helga Hrönn Melsteð og Ingólfur Finnsson sem reka ferðaþjónustufyrirtækið Tinna Adventure á Breiðdalsvík hlutu fyrir helgi Klettinn sem eru æðstu verðlaun sem ferðaþjónustuaðilar á Austurlandi veita ár hvert. Maciej Pietrunko sem rekur Arctic Fun á Djúpavogi hlaut viðurkenningu sem frumkvöðull ársins.

Austfirskir ferðaþjónustuaðilar héldu haustfund sinn á föstudaginn var þar sem verðlaunin voru veitt auk þess sem þjónustuaðilar báru saman bækur sínar og ræddu leiðir til að auka þjónustuna og bæta enn frekar. Þá flakkaði hópurinn töluvert um og kynntust markmiðum og rekstri ferðaþjónustuaðila á borð við ferðaþjónustuna að Mjóeyri á Eskifirði og Skorrahestum í Norðfirði.

Aðspurð segir Helga Hrönn Melsteð verðlaunin hafa komið á óvart. Fyrirtæki þeirra sé ekki ýkja stórt og því sérstaklega gaman að svo lítil fyrirtæki komist á þann stað.

„Við vorum engan veginn að reikna með svona viðurkenningu eins og við fengum þarna. Við erum að sinna öllum sem vilja en auðvitað er yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem kaupa þjónustu okkar erlendir ferðamenn. Við erum með margvíslega þjónustu en kannski fyrst og fremst þá erum við með breytta jeppa og bjóðum ferðir nánast um allt Austurland allt frá hálendi og niður að ströndum. Við erum, eins og flestir aðrir hér, mjög sveigjanleg ef fólk vill eitthvað sérstakt en erum líka með ákveðnar ferðir í sölu.“

Tinna Adventure reyna eins og aðrir ferðaþjónustuaðilar á Austurlandi að vekja athygli á vetrarferðum sem sýnt þykir að sé næsta skref til að koma ferðaþjónustu í fjórðungnum á næsta stig.

„Við höfum eiginlega frá upphafi boðið vetrarferðir en það ekki verið ýkja mikið sótt en auðvitað erum við að vona að það breytist því eins og staðan er nú þá erum við að reka annað fyrirtæki samhliða þessari þjónustu og aðeins þannig, og í eins miklu samstarfi við aðra, er svona að ganga upp. Það þarf að hafa eitthvað aukreitis fyrir nýja, litla ferðaþjónustuaðila hér því umferðin er ekki nóg til að halda þessu úti sem fullu starfi.“

Allt frá jeppaferðum til jógaiðkunar í boði hjá Tinna Adventure á Breiðdalsvík. Mynd Helga Hrönn Melsteð