Töluverð eftirspurn eftir nýjum íbúðum á Vopnafirði
Af þeim átta íbúðum sem verið er að byggja á Vopnafirði eru sex á vegum sveitarfélagsins og fara þær í útleigu. 11 umsóknir bárust um þær íbúðir og því er ljóst að umframeftirspurn er eftir húsnæði í sveitarfélaginu.Sara Elísabet Svansdóttir sveitarstjóri á Vopnafirði segir að það hafi lítið sem ekkert verið byggt í sveitarfélaginu frá aldamótum. Kröfur hafa breyst og því mætti ætla af þessari eftirspurn að dæma að þörf sé á frekari uppbyggingu húsnæðis hér.
„Þetta mun vonandi leiða af sér hreyfingu á fasteignamarkaði hér og hækkun fasteignamats því það hefur ekki hækkað í samræmi við markaðsverð undanfarin ár,“ segir Sara Elísabet.
Einnig kemur fram í máli hennar að þróun húsnæðismála og samsetning íbúa í Vopnafjarðarhreppi sé að breytast.
„Ungt fólk er að snúa aftur heim með fjölskyldur og því er allt sem bendir til þess að þörf sé á nýjum, litlum íbúðum á markaðinn til þess að losa stærri hús þar sem eldri einstaklingar búa jafnan,“ segir Sara Elísabet.
Vopnafjarðarhreppur fór þá leið til að byggja hagkvæm íbúðarhús að sækja um stofnframlag frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
„Vopnafjarðarhreppur sótti um og fékk úthlutað stofnframlagi til byggingar 6 íbúða eininga í Vopnafirði frá Húsnæðis- og Mannvirkjastofnun. Sambærileg hús hafa þegar verið byggð í Vík í Mýrdal, Blönduósi og víðar á landinu og er því komin nokkur reynsla af þessari húsagerð i framkvæmd og rekstri,“ segir Sara Elísabet.