Skip to main content

Töluvert borið á lungnabólgu austanlands þennan veturinn

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. feb 2025 09:33Uppfært 12. feb 2025 09:36

Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort óvenju margir Austfirðingar hafi sótt á heilsugæslur í fjórðungnum sérstaklega vegna lungnabólgu þennan veturinn en um það er undrast manna millum hversu margir hafa verið frá vegna slíkrar sýkingar og sumir hverjir vikum saman.

Lungnabólga getur sannarlega verið mjög mis-svæsin að sögn Eyjólfs Þorkelssonar, framkvæmdastjóra lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA), og í tilfellum getur skæð lungnabólga lagt menn niður í æði langan tíma.

„Það er ekki gott að segja hvað því veldur. Sumir sýklar eru miserfiðir frá ári til árs og þar RS-vírusinn og inflúensa kannski þekktustu dæmin. Þá getur komið til að fólk sé að veikjast af fleiri en einni tegund sýkils á sama eða svipuðum tíma, hjarðónæmi vegna þátttöku í bólusetningum [gæti haft áhrif] en slíkt getur haft áhrif á hve mikil magn sýkils kemst í líkamann á gefnu tímabili. Svo gæti það líka verið eitthvað allt annað en ekki síður getur allt þetta spilað saman og haft áhrif á alvarleika veikinda og eftirstöðvar.“

Aðspurður um hvort hægt sé verja sig slíkum veikindum með einhverjum hætti segir Eyjólfur almennar sóttvarnarráðleggingar geta skipt sköpum.

„Sjaldan er góð vísa of oft kveðin og hið sama á við um almennar sóttvarnarráðleggingar; reglulegur handþvottur og sprittun hjá öllum og ef fólk finnur fyrir einkennum er klókt að hafa í huga tveggja metra fjarlægðarregluna, forðast mannsöfnuði og nota grímu. Það hefur ekki þótt ástæða til að inngripa [vegna lungnabólgu sérstaklega] en þessi tilmæli eru ávallt góð og gild.“

Líkast til sækja sjaldan fleiri mannamót árlega en um þessar mundir þegar þorrinn er blótaður á velflestum stöðum. Slík mannamót ekki sérstaklega góð hugmynd fyrir þá sem eru viðkvæmir í lungum. Mynd GG