Treysta á þingmenn að beita sér fyrir Fjarðarheiðargöngum

Bæjarráð Seyðisfjarðarkaupstaðar lýsir yfir miklum vonbrigðum með að ekki sé útlit fyrir að framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng hefjist fyrr en eftir tíu ár, samkvæmt samgönguáætlun sem lögð var fyrir Alþingi nýverið.

Í bókun bæjarráðs frá í síðustu viku segir að óásættanlegt sé að bíða svo lengi eftir að öryggi vegfarenda verði tryggt með mannsæmandi samgöngum við einu tengingu Íslands við evrópska vegakerfið.

Illskiljanlegt sé að gera eigi hlé á jarðgangafrmakvæmdum næstu tíu árin. Það hljóti að vera grundvallarmál fyrir uppbyggingu samgöngukerfisins að gera ráð fyrir samfellu í slíkum framkvæmdum á landinu, sé það sýn fólks að þar eigi að vera byggð.

Þess er því krafist að byrjað verði á Fjarðarheiðargöngum um leið og framkvæmdum lýkur við Dýrafjarðargöng.

„Bæjarráð treystir á alla þingmenn að vinna að þessu máli af fullum þunga við meðferð þingsins á Samgönguáætlun, ekki síst í ljósi þess hve rýr hlutur Austurlands í henni er framan af og þeim miklu jákvæðu áhrifum sem Fjarðarheiðargöng munu hafa á atvinnulíf og mannlíf landshlutans, landinu öllu til heilla.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar