Truflanir á skólahaldi og annarri þjónustu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 20. jan 2025 08:01 • Uppfært 20. jan 2025 08:06
Enn er óvíst um skólahald víða á Austurlandi eftir mikla snjókomu í nótt. Appelsínugular viðvaranir gilda fram eftir degi. Röskum verður á ýmissi þjónustu, svo sem almenningssamgöngum og sorphirðu.
Í Fjarðabyggð fellur skólahald niður á Norðfirði og Stöðvarfirði. Enginn skólaakstur er í Breiðdals- og Stöðvarfjarðarskóla. Á Vopnafirði frestast skólabyrjun að minnsta kosti til klukkan tíu vegna ófærðar.
Í Fjarðabyggð er verið að opna leiðir innanbæjar eins og kostur er. Öll moksturstæki eru að störfum og áhersla lögð á aðalgötur og tengibrautir. Engar almenningssamgöngur verða fyrir hádegi það minnsta. Opnun sundlaugarinnar í Neskaupstað frestast, þar verður staðan endurmetin klukkan átta.
Í Múlaþingi raskast sorphirða og aksturs strætisvagns milli Egilsstaða og Fellabæjar. Nýjar upplýsingar verða gefnar út eftir klukkan átta.
Appelsínugul viðvörun er í gildi til klukkan 14 fyrir Austurland að Glettingi en til miðnættis á Austfjörðum. Samkvæmt tölum Veðurstofunnar er úrkoma á Seyðisfirði komin í yfir 80 mm síðan aðfaranótt sunnudags.
Segja má að aðrar leiðir en frá Reyðarfirði til Fáskrúðsfjarðar og frá Egilsstöðum inn að Úlfsstöðum séu ófærar eða illfærar. Jafnvel milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar er einbreitt á köflum. Verið er að moka áfram inn í Fljótsdal fyrir sunnan Djúpavog. Lögreglan á Austurlandi hefur hvatt íbúa til að vera sem minnst á ferðinni þar til veðrinu slotar.
Varðskipið Freyja er að koma inn til Seyðisfjarðar. Það verður til taks á Austfjörðum.
Minnst tveggja tíma seinkunn er á innanlandsflugi til Egilsstaða.