Tugir staura brotnir eftir ísingarveður – Myndir og myndbönd
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 21. jan 2025 18:36 • Uppfært 21. jan 2025 18:40
Viðgerðarflokkar Rarik héldu áfram störfum í dag á nokkrum stöðum á Austurlandi þar sem skemmdir eru á raflínum eftir mikið ísingarveður sem gekk yfir fjórðunginn á sunnudag og aðfaranótt mánudags. Nýr jarðstrengur til Stöðvarfjarðar var tengdur með hraði enda er línan að bænum í henglum.
Á um 1,3 km kafla næst þorpinu í Stöðvarfirði eru 14 stæður skemmdar. Flestar hafa kubbast í sundur, nokkrar lafa á lyginni einni. Fimm stæður í röð liggja kylliflatar.
Í svari Rarik við fyrirspurn Austurfréttar í dag segir að þar, sem annars staðar hafi orðið ísing neðar en spáð var. Á rafgirðingu við þorpið má sjá hvernig klaki hefur vafist á strenginn.
Þetta gerist þegar mikil selta er í snjónum og annað hvort sligar línur og slítur eða rífur niður rafmagnsstaura, eins og þarna gerðist. Eins getur seltan skapað leiðni til jarðar þannig að staurarnir brenna, líkt og gerðist á Berufjarðarströnd í veðrinu.
Rarik vinnur að því að koma strengjum næst byggð í jörðu og það vildi til happs að búið var að plægja jarðstreng að Stöðvarfirði. Hann var tengdur í gær og rafmagni hleypt á, um hálfum sólarhring eftir að það fór. Eftir er að fullklára tenginguna.
Unnið við slitnar línur í dag
Út með firðinum sunnanverðum brotnuðu einnig staurar. Starfsmenn Rarik unnu við að laga línuna þar í dag. Eins voru tveir flokkar að störfum í sunnanverðum Fáskrúðsfirði, við Hafnarnes og Víkurgerði. Þar höfðu brotnað staurar og línan liggur niðri. Sýnileg ísing var á köflum á línu sem þó hanga uppi í dag. Bæir á svæðinu voru tengdir með varaafli í gærkvöldi.
Óvenju mikill snjór er á Suðurfjörðum. Í Fáskrúðsfirði eru girðingar á kafi. Í Breiðdal var í gær farið og sópað þungum snjó ofan af húsþökum í sveitinni.
Fleiri bilanir komu upp í raforkukerfinu. Í sunnanverðum Reyðarfirði hafði ísingin sligað línur þannig þær slitnuðu og staurar brotnuðu. Í Álftafirði var mikil ísing en ekki skemmdur á búnaði, þótt mögulega þurfi að herða á línunni sem er sigin á köflum eftir álagið.
Á Berufjarðarströnd brotnaði einn staur og annar brann auk þess sem línur slitnuðu. Rafmagni var komið á með varaafli í gær. Viðgerður héldu áfram í dag og er vonast til að þeim ljúki í kvöld.
Í Lóni eru miklar skemmdir, minnst tíu staurar brotnir og slitnar línur. Viðgerðarflokkar frá Höfn hafa sinnt Djúpavogssvæðinu með liðsstyrk frá Hvolsvelli. Vonast er að viðgerðir klárist í dag en varafl hefur verið keyrt síðan á sunnudag.
„RARIK vill þakka öllum íbúum og fyrirtækjum á svæðinu fyrir þolinmæði og skilning og senda sérstakar þakkir til verktaka og björgunarsveita sem aðstoðuðu okkur í þessu verkefni,“ segir í tilkynningu Rarik.
Myndir og myndbönd tekin í Stöðvarfirði og Fáskrúðsfirði í dag.