Tvær milljónir til tólf menningarverkefna í Múlaþingi
Tólf forvitnileg verkefni hlutu nýverið styrk við seinni úthlutun menningarstyrkja Múlaþings þetta árið en í heild námu styrkirnir tveimur milljónum króna.
Sem endranær voru styrkumsóknir mun fleiri og um mun hærri upphæðir en til ráðstöfunar voru. Múlaþing úthlutar styrkjum til menningarverkefna tvívegis á ári hverju en meira fjármagn er um að ræða við fyrri úthlutun sem fram fer í byrjun hvers árs. Opnað verður fyrir umsóknir vegna fyrri úthlutunar næsta árs um miðjan þennan mánuð.
Hæstu styrkirnir 250 þúsund krónur
Verkefnin sem styrk hlutu í þetta skiptið af margvíslegum toga en hæstu styrkirnir nú námu 250 þúsund krónum og tvö verkefni fengu svo háan styrk. Annars vegar uppsetning Leikfélags Fljótsdalshéraðs á leikritinu Óvitunum eftir Guðrúnu Helgadóttur en hins vegar Katla Rut Pétursdóttir til að setja upp hátíðina Skáldasuð. Það ljóðahátíð þar sem áherslan er á að færa ljóðlistina út fyrir hið hefðbundna form og þá bæði í rými og framsetningu.
Listamaðurinn Linus Lohman frá Seyðisfirði fékk 210 þúsund krónur úthlutaðar til að setja upp einkasýningu á nýjum verkum sínum í Sláturhúsinu á Egilsstöðum og fjórir aðilar njóta 200 þúsund króna styrks. Þar um að ræða fræðslu- og upplifunargöngur Hildar Bergsdóttur þar sem máttugum andans konum fortíðarinnar gerð góð skil í tali og tónum undir heitinu Fótatak völvanna. Nafna hennar, Hildur Björk Þorsteinsdóttir, fékk einnig 200 þúsund krónur til að halda menningarviðburðinn Bragðavalla-sauðkindin meðan á Dögur myrkurs stendur en þar er góðgæti á borðum í viðbót við menningarupplifun
Tveir 200 þúsund króna styrkir fóru til Seyðfirðinga. Listamiðstöðin Skaftfell til að gefa út væntanlega bók um stofnun miðstöðvarinnar sem er um margt merkileg og þá fékk Tækniminjasafnið sama styrk til að vekja sögur og sagnir úr fortíðinni til lífsins yfir Daga myrkurs.
Fleiri verkefni á Seyðisfirði fengu úthlutun að þessu sinni. Arndís Ýr Hansdóttir hyggst setja þar á fót óháða kvikmyndahátíð og fékk til þess 180 þúsund krónur. Þá fékk Jafet Bjarkar Björnsson 90 þúsund til að setja á fót Klifurfestivalið Yoga Moves komandi sumar
Bókasafn Héraðsbúa fékk 135 þúsund til að halda fyrirlestur um rithöfundinn Jane Austen, Ína Berglind Guðmundsdóttir sléttar 100 þúsund til að gefa út nýtt lag sitt og síðast, en ekki síst, fékk Anna Stefanía Magnúsdóttir 60 þúsund til að halda námskeið í baldnýtingu og knipli sem eru fornar handverksaðferðir er tengjast íslenskum þjóðbúningum.