Tveir Austfirðingar dæmdir fyrir afbrot í Reykjavík
Tveir Austfirðingar hafa að undanförnu fengið dóma fyrir afbrot sem þeir frömdu í Reykjavík. Annar hlaut dóm fyrir líkamsárás en hinn fyrir fíkniefnabrot.
Báðir eru karlmenn á fertugsaldri, búsettir annars vegar á Norðfirði, hins vegar á Fáskrúðsfirði.
Norðfirðingurinn var dæmdur í Héraðsdómi Austurlands fyrir líkamsárás í september 2023 í Reykjavík fyrir að hafa veist að öðrum einstaklingi og slegið hann í höfuð þannig að hann kinnbeinsbrotnaði. Sá hlaut einnig bólgur og skurði í andliti.
Árásarmaðurinn játaði brot sitt skýlaust en fór fram á lækkun á miskabótakröfu upp á 2,5 milljónir króna. Dómurinn taldi atlöguna hafa verið alvarlega og dæmdi því Norðfirðinginn í tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi.
Hann þarf að greiða 600 þúsund krónur í skaðabætur og 400.000 krónur til fórnarlambs síns vegna kostnaðar auk 490.000 króna í sakarkostnað og til verjanda síns.
Með fíkniefni á flugvellinum
Fáskrúðsfirðingurinn var handtekinn á Reykjavíkurflugvelli í byrjun september 2024 með 36 grömm af amfetamíni auk 20 gramma af kvíðalyfi og 60 töflum af lyfi við athyglisbresti í bakpoka sínum. Talið er að efnin hafi verið ætluð til sölu enda fannst vog í fórum mannsins.
Héraðsdómur Reykjavíkur leit til þess að maðurinn játaði brot sitt og hefur reynt að koma lífi sínu á réttan kjöl. Á móti hefur hann fjórum sinnum undirgengist lögreglustjórasátt eða dóm, helst vegna umferðarlagabrota.
Hann var því dæmdur í tveggja mánaða fangelsi, sem skilorðsbundið er til tveggja ára. Efnin voru gerð upptæk auk þess sem hann þarf að greiða 240 þúsund krónur í sakarkostnað og til verjanda síns.