Skip to main content

Tveir dagar framundan af appelsínugulum viðvörun

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. feb 2025 18:54Uppfært 04. feb 2025 18:57

Veðurstofan hefur gefið út staðbundnar appelsínugular viðvaranir á morgun og fyrir landið á allt á fimmtudag. Von er á foráttustormi úr suðvestri og talsverðri úrkomu á sunnanverðum Austfjörðum


Viðvörunin fyrir Austfirði tekur gildi klukkan 16:00 á morgun. Spáð er suðvestan 23-30 m/s með staðbundnum hviðum upp á 40 m/s. Von er á rigningu og hún verði talsverð sunnantil. Í yfirliti frá ofanflóðadeild Veðurstofunnar segir að þar sé líkur á vatnavöxtum og aurskriðum eða krapaflóðum.

Á Austurlandi gengur viðvörunin í gildi klukkan 17:00. Þar er einnig spáð suðvestan 23-28 m/s og hviðum yfir 35 m/s. Á báðum stöðum eru taldar líkur á foktjóni og að samgöngur raskist.

Þessar viðvaranir gilda fram yfir miðnætti. Þá tekur við viðvörun um sunnanstorm, 20-30 m/s um allt land og gildir þar til klukkan 17:00 á fimmtudag. Almannavarnir á Austurlandi hvetja íbúa til að ferja lausamuni og fylgjast vel með fréttum af veðri og færð.

Í frétt ofanflóðadeildarinnar er vikið sérstaklega að skriðuhættu á Seyðisfirði og Eskifirði. Grunnvatnsstaða í hlíðum hefur hækkað eftir leysingar síðustu daga en engar hreyfingar hafa sést eða mælst. Ekki er búist við mikilli rigningu á þessum stöðum en storminum fylgir hiti, 3-14 stig, þannig að snjór til fjalla leysir en hann er enn talsverður á þessum stöðum.

Viðbragðsaðilar á Austurlandi funda um stöðuna í fyrramálið, meðal annars með Veðurstofu. Vart er að vænta frétta þaðan fyrr en um hádegi.