Tveir farþegar Norrænu með Covid-19 smit
Tveir farþegar Norrænu, sem væntanleg er til Seyðisfjarðar á morgun, greindust með Covid-19 smit skömmu eftir að ferjan lét úr höfn í Danmörku á laugardag. Þeir eru í einangrun um borð.Þetta kemur fram í tilkynningu aðgerðastjórnar almannavarnanefndar Austurlands.
Tveir ferðafélagar þeirra reyndust ósmitaðir ern eru í sóttkví. Enginn fjórmenninga sýnir einkenni smits og ekki er talin ástæða til að ætla að smit hafi borist í farþega eða áhöfn.
Hópurinn fer í sýnatöku við komuna til Seyðisfjarðar og ætti niðurstaða hennar að liggja fyrir annað kvöld. Áframhaldandi sóttkví bíður þeirra og einangrun í samræmi við reglur.
Alls eru 27 farþegar með ferjunni og verða sýni tekin úr þeim á morgun. Þeir þurfa síðan að dvelja í 5-6 daga í sóttkví eða uns niðurstöður liggja fyrir úr seinni skimun þeirra.
Enginn er með virkt Covid smit á Austurlandi og aðeins einn í sóttkví. Aðgerðastjórnin minnir samt áfram á persónubundnar smitvarnir svo sem fjarlægðarmörk, handþvott, grímunotkun, sprittnotkun og að ferðast ekki að óþörfu milli landshluta.
Óvænt smit á Landakoti og erfið staða á Landsspítalanum í kjölfarið sýni glögglega mikilvægi þess að slaka hvergi á.