Skip to main content

Tveir þingmenn nýttu jómfrúarræðurnar til að tala um jarðgöng

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. feb 2025 15:52Uppfært 18. feb 2025 15:53

Tveir nýir þingmenn Norðausturkjördæmis nýttu jómfrúarræður sínar á Alþingi í síðustu viku til að hvetja til þess að fundnar yrðu lausnir þannig hægt yrði að hefjast handa við gerð nýrra vegganga á Íslandi.


Ingvar Þóroddsson, þingmaður Viðreisnar, vísaði í nýja ályktun Sambands sveitarfélaga á Austurlandi þar sem vakin er athygli á því að Seyðfirðingar hafi verið innilokaðir í miklu fannfergi dagana 19. – 20. janúar síðastliðinn og ekki átt aðrar öruggar undankomuleiðir en á sjó. Þar væri bent á að við þær aðstæður hefði kona eignast barn, hið fyrsta sem fær Seyðisfjörð skráðan sem fæðingarstað sinn í rúm 30 ár.

Í ályktun SSA er einnig vakin athygli á að Austfirðingar hafi áður lenti í slíkum aðstæðum, til dæmis um mánaðamótin mars/apríl árið 2023 þegar fjöldi snjóflóða féllu í kringum byggðina í Neskaupstað og víðar á Austfjörðum.

Þess vegna þurfi stjórnvöld að hefja framkvæmdir hið fyrsta til að gera mið-Austurland að einu svæði. Aðeins með hringtengingu verði samgöngur tryggðar milli Umdæmissjúkrahússins í Neskaupstað og flugvallarins á Egilsstöðum en líka að svæðið geti á eigin forsendum vaxið sem eitt atvinnu- og þjónustusvæði. Fyrsti áfanginn að því séu Fjarðarheiðargöng sem séu tilbúin til útboðs.

Ingvar sagðist taka undir hvert orð og skora á Alþingi, einkum nýja ríkisstjórn sem hann tilheyrir og samgönguráðherra, að setja þessar mikilvægu framkvæmdir á dagskrá sem fyrst. „Austfirðingar hafa beðið of lengi,“ sagði hann.

Jarðgangafélag að færeyskri fyrirmynd


Jens Garðar Helgason, Sjálfstæðisflokki, sagði fjárfestingar í samgöngum, þar með talið jarðgöngum, forsendu áframhaldandi verðmætasköpunar og velferðarríkisins.

Hann boðaði að hann myndi á næstu vikum leggja fram þingsályktunartillögu um skoðun á stofnun jarðgangafélags að færeyskri fyrirmynd. Hann sagði merkilegt að Færeyingar væru á fullri ferð við að tengja eyjarnar saman með jarðgöngum meðan ekkert hefði gert hérlendis í fimm ár.

Hann sagði Tunnil partafélag, félag í opinberri eigu, lykilinn að því. Félagið haldi utan um rekstur jarðganga þar, bjóði út og og fjármagni framkvæmdir. Þar hafi erlendir lífeyrissjóðir veitt hagstæð lán til 60-80 ára. Í öll göng sé gjaldskylda og eitt kort sem gildi í þau öll.