Tveir þingmenn nýttu jómfrúarræðurnar til að tala um jarðgöng
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 18. feb 2025 15:52 • Uppfært 18. feb 2025 15:53
Tveir nýir þingmenn Norðausturkjördæmis nýttu jómfrúarræður sínar á Alþingi í síðustu viku til að hvetja til þess að fundnar yrðu lausnir þannig hægt yrði að hefjast handa við gerð nýrra vegganga á Íslandi.
Ingvar Þóroddsson, þingmaður Viðreisnar, vísaði í nýja ályktun Sambands sveitarfélaga á Austurlandi þar sem vakin er athygli á því að Seyðfirðingar hafi verið innilokaðir í miklu fannfergi dagana 19. – 20. janúar síðastliðinn og ekki átt aðrar öruggar undankomuleiðir en á sjó. Þar væri bent á að við þær aðstæður hefði kona eignast barn, hið fyrsta sem fær Seyðisfjörð skráðan sem fæðingarstað sinn í rúm 30 ár.
Í ályktun SSA er einnig vakin athygli á að Austfirðingar hafi áður lenti í slíkum aðstæðum, til dæmis um mánaðamótin mars/apríl árið 2023 þegar fjöldi snjóflóða féllu í kringum byggðina í Neskaupstað og víðar á Austfjörðum.
Þess vegna þurfi stjórnvöld að hefja framkvæmdir hið fyrsta til að gera mið-Austurland að einu svæði. Aðeins með hringtengingu verði samgöngur tryggðar milli Umdæmissjúkrahússins í Neskaupstað og flugvallarins á Egilsstöðum en líka að svæðið geti á eigin forsendum vaxið sem eitt atvinnu- og þjónustusvæði. Fyrsti áfanginn að því séu Fjarðarheiðargöng sem séu tilbúin til útboðs.
Ingvar sagðist taka undir hvert orð og skora á Alþingi, einkum nýja ríkisstjórn sem hann tilheyrir og samgönguráðherra, að setja þessar mikilvægu framkvæmdir á dagskrá sem fyrst. „Austfirðingar hafa beðið of lengi,“ sagði hann.
Jarðgangafélag að færeyskri fyrirmynd
Jens Garðar Helgason, Sjálfstæðisflokki, sagði fjárfestingar í samgöngum, þar með talið jarðgöngum, forsendu áframhaldandi verðmætasköpunar og velferðarríkisins.
Hann boðaði að hann myndi á næstu vikum leggja fram þingsályktunartillögu um skoðun á stofnun jarðgangafélags að færeyskri fyrirmynd. Hann sagði merkilegt að Færeyingar væru á fullri ferð við að tengja eyjarnar saman með jarðgöngum meðan ekkert hefði gert hérlendis í fimm ár.
Hann sagði Tunnil partafélag, félag í opinberri eigu, lykilinn að því. Félagið haldi utan um rekstur jarðganga þar, bjóði út og og fjármagni framkvæmdir. Þar hafi erlendir lífeyrissjóðir veitt hagstæð lán til 60-80 ára. Í öll göng sé gjaldskylda og eitt kort sem gildi í þau öll.