Um 170 manns að heiman eftir rýmingar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 19. jan 2025 19:50 • Uppfært 19. jan 2025 19:52
Um 170 íbúar verða fjarri heimilum sínum að minnsta kosti í nótt vegna snjóflóðahættu á Seyðisfirði og í Neskaupstað. Atvinnusvæðum hefur einnig verið lokað.
Í dag hafa verið rýmt alls sjö rýmingarreitir á Seyðisfiðri og þrír í Neskaupstað. Í Neskaupstað er um að ræða annars vegar íbúasvæði þar sem snjóflóð féllu í mars 2023, hins vegar fyrir innan þorpið á Ströndinni og í Naustahvammi. Á rýmda svæðinu eru 45 íbúðahús. Rýmingin tók gildi klukkan 18 í kvöld.
Á Seyðisfirði voru fyrst rýmd tvö svæði yst í byggðinni sunnanverðri og önnur tvö yst í henni norðanverðri. Undir kvöld var ákveðið að rýma þrjú svæði í viðbót í byggðinni sunnanverðri. Er svæðið fyrir utan Tækniminjasafnið því lokað. Fyrri rýmingin tók gildi klukkan 18 en sú seinni klukkan 20. Á Seyðisfirði voru rýmd fimm íbúðarhús.
Þetta þýðir að alls búa um 170 manns á svæðunum sem rýmd voru. Í tilkynningu lögreglu segir að allir íbúar sem þurftu að fara að heiman séu komnir með húsaskjól. Fjöldahjálparmiðstöð Seyðisfjarðar er í Herðubreið en Norðfjarðar í Egilsbúð. Fólk sem finnur fyrir ónotatilfinningu getur leitað þangað eða hringt í hjálparsíma Rauða krossins, 1717.
Starfsemi er óheimil á atvinnusvæðunum á meðan rýmingu stendur. Því verður ekki hægt að vinna þar á morgun en búist er við að rýmingarnar standi fram á þriðjudagsmorgunn. Appelsínugul viðvörun er í gildi fyrir Austfirði til miðnættis annað kvöld en á Austurlandi fram yfir hádegi á morgun.
Snjóflóð féllu á Hringveginn milli Breiðdalsvíkur og Stöðvarfjarðar annars vegar, milli Djúpavogs og Hafnar hins vegar, um klukkan fimm í dag. Leiðirnar eru því lokaðar. Fagradal var lokað klukkan 19 vegna snjóflóðahættu. Öðrum fjallvegum var lokað fyrr vegna ófærðar. Þungfært er víða á láglendi.
Hægt er að sjá rýmingarreitina í kortavefsjá Fjarðabyggðar og Múlaþings. Valið er „skipulag“ og „rýmingarsvæði“ úr valmynd.
Mynd: Landsbjörg