Umboðsmaður Alþingis gerir ekki athugasemd við ráðningu bæjarstjóra á Seyðisfirði
Umboðsmaður Alþingis telur ekki ástæðu til að gera teljandi athugasemdir við ráðningarferli bæjarstjóra Seyðisfjarðarkaupstaðar. Umboðsmaðurinn telur sveitarstjórnir hafa rétt til að ráða sér framkvæmdastjóra á sjónarmiðum sem alla jafna teldust ekki málefnaleg, svo sem af pólitískum toga.Þetta kemur fram í bréfi Umboðsmannsins sem birt var á vef embættisins í dag. Bréfi svar við kvörtun sem umsækjandi um starf bæjarstjóra sendi inn um að fram hjá sér hafi verið gengið með hliðsjón af menntun og reynslu og gerði athugasemdir við ráðningarferlið. Pólitísk tengsl, búseta og kunningsskapur kynnu að hafa haft áhrif á mat á umsækjendum.
Ekki er tilgreint í álitinu undan hvaða sveitarfélagi var kvartað. Í fundargerð bæjarráðs Seyðisfjarðarkaupstaðar kemur hins vegar fram að sveitarfélagið hafi í byrjun september fengið erindi frá Umboðsmanni með beiðni um gögnum vegna ráðningar bæjarstjóra eftir kvörtun frá einum umsækjenda.
Hlutverk bæjarstjóra að framfylgja pólitískum ákvörðunum
Í bréfi Umboðsmanns segir að sveitarfélög hafi meira svigrúm til að velja hvaða forsendur eigi að vera að baki ráðningar framkvæmdastjóra sveitarfélagsins en við aðrar opinberar ráðningar.
Hlutverk framkvæmdastjórans sé að framfylgja ákvörðunum sem teknar eru á pólitískum vettvangi, ráðningartími hans fylgi kjörtímabili sveitarstjórnar og hann hafi málfrelsi og tillögurétt á fundum hennar.
Um sé að ræða pólitískt trúnaðarstarf gagnvart sveitarstjórn og því heimilt að byggja á pólitískum sjónarmiðum við ráðninguna, sem og sjónarmiðum um að traust þurfi að ríka milli framkvæmdastjóra og meirihluta sveitarstjórnar. Fyrir því séu dómafordæmi.
Sveitarstjórn geti því ráðið þann einstakling sem hún treysti best og hafi visst svigrúm til að ríkja frá óskráðri stjórnsýslureglu um að velja beri hæfasta einstaklinginn, til dæmis út frá menntun og reynslu.
Varlegt að tilgreina hæfniskröfur of vandlega
Að starfið sé auglýst breytir því ekki að starfið sé sérstakt né eyðir svigrúmi sveitarstjórnar. Auglýsingin sé þó upphaf stjórnsýslumáls sem ljúka þurfi gagnvart umsækjendum. Varast eigi að setja fram hæfniskröfur í auglýsingu með þeim hætti að umsækjendur vænti þess að eingöngu verði byggt á þeim, nema fyrir liggi ákvörðun um það.
Umboðsmaður gerir ekki athugasemdir við orðalag auglýsingar kaupstaðarins og telur að sjónarmið fyrir ráðningunni hafi þar verið sett fram með almennum hætti. Ef breyta eigi um stefnu eftir að úrvinnsla umsókna er hafin þarf sveitarstjórn að gera umsækjendum grein fyrir því.
Ekki ástæða til að ætla að tengsl hafi skipt máli umfram það sem eðlilegt sé
Umsækjandinn gerir athugasemd við að öll sveitarstjórnin hafi setið viðtölin á þeim forsendum að einhverjir fulltrúar hafi haft pólitísk tengsl við umsækjendur.
Umboðsmaður svarar með að benda á að það sé skylda sveitarstjórnar að meta umsækjendur út frá þeim sjónarmiðum sem fram hafi komið í auglýsingu. Eftir að hafa farið yfir gögn málsins, meðal annars auglýsinguna og svar bæjarstjórnar um að við ráðninguna hafi verið byggt á mati á umsóknum, viðtölum, persónuleikamati sem og trausti, telur Umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að ætla að búseta eða tengsl umsækjenda við kjörna fulltrúa hafi skipt máli við ráðninguna, umfram það sem heimilt sé.
Eina athugasemd Umboðsmanns snýr að því að þegar nöfn umsækjenda voru birt hafi verið greint frá því í hvaða sveitarfélagi þeir byggju, en ekki starfsheiti eins og kveðið sé á um í lögum. Að öðru leyti telur Umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við aðkomu sveitarstjórnar að ráðningunni, né ráðningarferlið.