Umferðin á Austurlandi jókst um rúm 26% í mars

Umferðin um Hringveginn á Austurlandi jókst um rúm 26% í mars miðað við sama mánuð í fyrra. Ef tekið er tímabilið frá áramótum er aukningin hinsvegar aðeins rúm 3% miðað við sama tímabil í fyrra.


Þetta kemur fram á vefsíðu Vegagerðarinnar. Þar segir að umferðin á Hringveginum í heild í mars jókst um nærri 23% frá mars í fyrra en þá hafði kórónufaraldurinn dregið mjög mikið úr umferð.

Frá áramótum hefur umferðin aukist um 7% og er aukning í öllum landssvæðum utan Suðurlands þar sem umferð dregst saman. Má það væntanlega rekja til samdráttarins í ferðamennskunni, að því er segir á vefsíðunni.

Umferð jókst í öllum landssvæðum í mars en mest á Norðurlandi eða um 34,6% en minnst á Suðurlandi eða um 16,8%.  

Athygli vekur  að allir talningastaðir, fyrir utan tvo, sýna mikla aukningu.  Mest jókst umferðin um Holtavörðuheiði eða um 46,3%. Þeir staðir sem sýna samdrátt eru Mýrdalssandur með tæplega 49% samdrátt og vestan Hvolsvallar með rétt rúmlega 5% samdrátt.  Umferðin um Mýrdalssand, var í síðasta mánuði, rétt rúmlega það sem hún var árið 2013. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.