Umgangspestir á Austurlandi ekki fleiri en í meðalári
Hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) hafa menn ekki orðið varir við að umgangspestir í byrjun vetrar séu nokkuð meiri en í meðalári þó nokkuð umtalað sé hve margir hafa verið frá störfum vegna veikinda síðustu vikur.
Inflúensa gerir jafnan vart við sig ár hvert í október eða nóvember hér á landi og nær gjarnan hámarki í janúar eða febrúar. Svo mikill fjöldi fólks austanlands hefur haldið sig heimavið síðustu vikur vegna veikinda að um er talað en samkvæmt Eyjólfi Þorkelssyni, framkvæmdastjóra lækninga hjá HSA, hefur ekki orðið vart við að fjöldinn sé meiri en í meðalári.
„Við höfum ekki fengið veður af því að umgangspestir séu meiri en í meðalári. Ég hef þó fengið óstaðfestar fregnir af því að RS vírus hafi komið heldur fyrr en menn voru að vona að yrði raunin. Þess má geta að nýlega voru bólusetningar fyrir RS innleiddar sem hluti af ungbarnavernd og standa því vonir til að náist að bægja alvarlegum veikindum af þeim vágesti frá yngstu börnunum.“
Ýmsir hafa haft áhyggjur af að veikindi víða séu hugsanlega tengd Covid en ekki flensu en Eyjólfur segir ekkert benda til að Covid 19 sé að láta á sér bera sérstaklega.
„Ekki hefur komið til tals að grípa til sérstakra aðgerða vegna Covid. Frá 2023 hefur dregið verulega úr tíðni alvarlegra veikinda og álagi á stofnanir vegna COVID-19 yfir vetrartímann og telur Landlæknir ekki tilefni til að leggja áherslu á bólusetningu gegn COVID-19. Bóluefni er samt sem áður til og ef COVID-19 lætur á sér bera, hvort sem er í samfélagi eða innan stofnunar, er rétt að nota bóluefnið til að draga úr veikindum meðal áhættu- og forgangshópa. Við fylgjumst náið með þróuninni.“