Undirbúa viðgerðir á raflínunni til Dalatanga
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 11. feb 2025 12:35 • Uppfært 11. feb 2025 12:35
Starfsmenn Rarik stefna á að hefja viðgerðir á raflínunni út á Dalatanga á morgun en hún bilaði fyrir tæpum þremur vikum. Aðstoð þyrlu þarf til verksins.
Raflínan gaf sig á tveimur stöðum þann 24. janúar síðastliðinn í kjölfar mikils ísingarveðurs á Austfjörðum. Starfsmenn lýsa því að 20-30 sm. þykkur ís hafi hlaðist á sterkan stálvírinn og slitið hann.
Farið var á staðinn í gær til að kanna aðstæður og ljóst að krefjandi verður að koma efni á staðinn. Raflínan út á Dalatanga liggur út sunnanverðan Seyðisfjörð, yfir Dalaskarð og að Dalatanga.
Stefnt er að því að hefja viðgerðir Seyðisfjarðarmegin á morgun. Dalatangamegin þarf þyrlu til viðgerðarinnar og einhverra daga bið er eftir henni.
Víðar á Austurlandi eru eftir minniháttar lagfæringar eftir óveður síðustu vikna. Engar eru stórvægilegar og allir aðrir viðskiptavinir Rarik tengdir.