Unglingalandsmót UMFÍ formlega staðfest á Egilsstöðum í sumar
Þó tilkynnt hafi verið í mótslok unglingalandsmóts Ungmennafélags Íslands í ágúst á síðasta ári að næsta slíka mótið færi fram á Egilsstöðum á komandi sumri átti alltaf eftir að staðfesta það með formlegum hætti. Það var gert í gær.
Þá komu saman þeir Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, Benedikt Jónsson, formaður Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands og Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, og skrifuðu undir samning þar að lútandi og notuðu félagarnir tækifæri til þess á þrettándagleði íþróttafélagsins Hattar. Var meðfylgjandi mynd tekin af því tilefni.
Unglingalandsmótið fer svo fram um Verslunarmannahelgina í byrjun ágúst og verður það í þriðja skiptið sem þetta risamót fer fram á Egilsstöðum. Þar reyna með sér ungmenni frá 11 til 18 ára aldri í hinum ýmsu íþróttagreinum. Ekki er óalgengt að þátttakendafjöldinn sé kringum þúsund manns og heildargestafjöldi geti farið í eða jafnvel yfir tíu þúsund manns.
Undirbúningur þessa stóra móts hófst þegar síðasta sumar en nú er verið að leggja lokahönd á skipulag mótsins og mótsnefnd. Formaður þeirrar nefndar verður Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings.