Uppbyggingarsjóður Austurlands styrkir tæplega 60 verkefni
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 12. des 2024 17:58 • Uppfært 12. des 2024 18:01
Alls var 56,5 milljónum veitt til 59 verkefna úr Uppbyggingarsjóði Austurlands við úthlutun ársins 2024 sem fram fór í Vök baths í dag. Líkt og í fyrra fer hæsti styrkurinn til Sinfóníuhljómsveitar Austurlands.
Hljómsveitin fær 3,2 milljónir króna í vortónleika sína þar sem áformað er að frumflytja nýtt verk eftir austfirska tónskáldi Ingibjörgu Ýr Skarphéðinsdóttur. Hljómsveitin fær tvo styrki, hinn er upp á eina milljón í annað starf hennar.
Þar á eftir kemur hæstu atvinnuþróunarstyrkurinn, 2,6 milljónir til Torfkofans ehf. Til stendur að setja upp kyndistöð fyrir gróðrarstöð á köldu svæði þannig hún geti starfað allt árið. Þannig verði hægt að framleiða grænmeti fyrir veitingastaði árið um kring. Torfkofinn fær einnig minnsta styrkinn, 250.000 til að þróa vefverslun fyrir garðyrkjustöð.
Alls bárust 113 umsóknir upp á tæpar 234 milljónir. Heildarkostnaður verkefna var 812,9 milljónir. Fjöldi styrkumsókna var svipaður og fyrri ár en umfangið og upphæðirnar færri. Þá var upphæðin sem til úthlutunar var níu milljónum lægri.
Úthlutanirnar skiptast í þrennt: 26,7 milljónir fara til 38 menningarverkefna, fimm milljónir í fjóra stofn- og rekstrarstyrki og 25,3 milljónir í atvinnuþróun og nýsköpun. Í ár var lögð sérstök áhersla á að styrkja atvinnu- og nýsköpun fólks yngra en 35 ára og bárust töluvert fleiri umsóknir frá þeim hópi en áður.