Upplýsingagjöf til Vopnfirðinga batnar til muna með glænýrri vefsjá
Hvar liggja fornminjar í hreppnum og hvaða götur eru fyrstar í röðinni með mokstur þegar allt er á kafi í snjó? Svör við þessum tveimur spurningum og fjölmörgum öðrum fást nú í glænýrri vefsjá Vopnafjarðarhrepps.
Vefsjáin atarna fór í loftið á mánudaginn var en unnið hefur verið að því frá byrjun ársins að koma slíkum vef á koppinn. Þar að finna gnótt upplýsinga nú þegar sem gagnast geta bæði íbúum í hreppnum en jafnframt forvitnum gestum ef því er að skipta.
Upplýsingagjöf til nútímans
Var það strax hugðarefni Bjarts Aðalbjörnssonar, sem tók við starfi forstöðumanns þjónustumiðstöðvar hreppsins um áramótin, að koma upplýsingagjöf til íbúanna til nútímans en allar þær upplýsingar sem finnast á vefsjánni voru meira og minna áður aðeins aðgengilegar í pappírsformi í möppum og hirslum.
„Ég tók við hér sem forstöðumaður þjónustumiðstöðvarinnar í janúarmánuði og fór fljótlega að blöskra hversu mikið var af möppum og skjalaskápum hér með ýmsum upplýsingum sem nýst gætu íbúum og fleirum. Sá alveg fulla ástæðu til að koma þessu á nútímaform svo aðgengilegra yrði.“
Bjartur segir fjarri lagi að vefsjárvefurinn sé fullkláraður því enn bíði staflar af gögnum sem færa þarf á tölvutækt form og bæta við þær upplýsingar sem fyrir eru. Allt er það gert í samvinnu við verkfræðistofuna EFLU sem heldur utan um vefinn. Þar er nú þegar hægt meðal annars að átta sig á hvar fornminjar finnast í hreppnum, ýmsar upplýsingar um veitukerfi og ljósleiðaratengingar, lóðamerki og margt fleira sem nýst gæti vel.
„Vefurinn er ekki fullkláraður og verður það kannski aldrei því það er endalaust hægt að bæta við ýmsum upplýsingum sem gagnast geta heimamönnum eða jafnvel gestum og ferðafólki. Sjálfur er ég í því núna að bæta þar inn teikningum af húsum en þetta er tímafrekt verkefni því allt þarf að skanna inn, hnitmerkja og annað slíkt.“
Bjartur hvetur íbúa hreppsins endilega til að hafa samband með ábendingar um hverju mætti bæta við þegar fram líða stundir. Vefsjánna má finna hér.