Upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar á leik- og grunnskólastarfi Fjarðabyggðar veittar síðar
Hópur íbúa Fjarðabyggðar sem óskuðu með sérstökum undirskriftarlista til bæjarráðs eftir sérstökum upplýsingafundi vegna fyrirhugaðra breytinga á leik- og grunnskólastarfi sveitarfélagsins höfðu ekki erindi sem erfiði að sinni.
Einir 236 einstaklingar skrifuðu undir kröfuna um betri og nánari upplýsingagjöf sveitarfélagsins en þeim hópi þykir ljóst að upplýsingagjöf til skólasamfélagsins í Fjarðabyggð sé ábótavant. Foreldrar sem og kennarar og leiðbeinendur séu í óvissu vegna málsins og upplýsingaleysið hafi þegar skapað starfsóöryggi hjá starfsmönnum leik- og grunnskóla. Skýr krafa sé um að fólk sé vel upplýst um málefni er snerta börn og ungmenni sveitarfélagsins.
Bendir hópurinn á að Fjarðabyggð hafi sérstaklega boðað gott samtal og vandaða upplýsingagjöf vegna boðaðra breytinga þann 1. mars síðastliðinn en lítið hafi orðið úr efnum.
Austurfrétt greindi frá bókun bæjarráðs þann 11. nóvember síðastliðinn að starf þeirra hópa sem væru að skoða breytingar á starfi leik- og grunnskóla sveitarfélagsins færi á ís í bili sökum kjaradeilna Kennarasambandsins við Samband íslenskra sveitarfélaga og íslenska ríkið. Ástæðan sú að nýir kjarasamningar, þegar tekst hefur að semja, geti haft bein áhrif á ákvarðanir starfshópanna.
Bæjarráð fyrir sitt leyti svaraði hóp undirskrifenda með að benda á þá fyrri bókun en jafnframt tiltekið að þegar búið verður að skrifa undir nýja kjarasamninga við kennara verði málið allt tekið fyrir að nýju og í kjölfarið kynnt hlutaðeigandi aðilum.