Uppselt á helming sýninga hjá leikhópnum Svipir

Uppselt er á helming sýninga á leikverkinu Sunnefa, sönn saga? Hjá leikhópnum Svipir í Sláturhúsinu.

Þetta kemur fram á vefsíðu Fljótsdalshéraðs. Þar segir að sýningin sé samstarfsverkefni leikhópsins Svipir og MMF. Frumsýningin er á laugardaginn n.k. en síðan verður verkið sýnt fram til 26. september.

Höfundur handrits í samstarfi við leikhópinn er Árni Friðriksson, Þór Tulinius leikstýrir og Egill Ingibergsson hannar leikmynd og lýsingu. Leikkonur eru þær Tinna Sverrisdóttir og Margrét Kristín Sigurðardóttir.

Fram kemur að Sunnefa Jónsdóttir var tvívegis dæmd til drekkingar snemma á átjándu öld. Hún var sögð hafa eignast börn með yngri bróður sínum fyrst þegar hún var sextán ára og svo þegar hún var átján.

Á Þingvöllum 1743 neitar hún sök og segir að faðir seinna barnsins sé enginn annar en sýslumaðurinn sem dæmdi hana.
„Hvernig dirfðist fátæk alþýðustúlka að rísa upp gegn yfirvaldinu? Hvað veitti henni slíkan kjark?,“ er spurt á vefsíðunni.

Einnig segir m.a. að leikhópurinn Svipir setur upp kvennatvíleik þar sem leikkonurnar tvær kafa ofan í magnaða sögu Sunnefu. Þær sanka að sér heimildum, rannsaka og reyna að átta sig á hver þessi unga kona var sem lifði svo myrka tíma.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.