Þuríður Backmann styður ekki óbreytt fjárlagafrumvarp
Fram kemur í nýjasta tölublaði Austurgluggans sem kom út fyrir helgi að einungis tveir af þeim tíu þingmönnum NA- kjördæmis styðja óbreytt fjárlagafrumvarp. Þá var rætt við Þuríði Backmann eftir borgarafundinn á Egilsstöðum þar sem hún sagðist ekki geta stutt óbreytt fjárlagafrumvarp þó svo að hún telji mjög mikilvægt að fjárlagafrumvarpið fari ekki út fyrir þann ramma sem þar væri gefinn.Á borgarafundinum á Egilsstöðum var lesin upp orðsending frá Kristjáni Möller, þingmanni samfylkingarinnar í NA kjördæmi og fyrrverandi samgönguráðherra. Í orðsendingunni kom fram að tillögurnar hefðu komið honum á óvart. „Ég hafði aldrei séð þær né heyrt af þeim þrátt fyrir það að hafa setið í ríkisstjórn til 2. september sl. Þetta eru tillögur frá fyrrverandi heilbrigðisráðherra og slíkar grundvallarbreytingar í heilbrigðisþjónustu hafa ekki verið ræddar á vettvangi ríkisstjórnarinnar né þingflokki samfylkingarinnar. Við þingmenn samfylkingarinnar í kjördæminu höfum á okkar vettvangi lýst yfir andstöðu okkar á þessum tillögum og munum ekki samþykkja þær óbreyttar."
Það er ljóst að það er lítill stuðningur við óbreytt fjárlagafrumvarp innan kjördæmisins og einungis hafa þeir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, og Björn Valur Gíslason, þingmaður vinstri grænna, gefið það út að þeir styðji frumvarpið. Þá hafa fjölmörg félagasamtök sent út harðorða ályktanir. Í síðustu viku barst agl.is ályktun frá svæðissamtökum vinstri grænna. Ályktunin er svohljóðandi:
Ályktun vegna fyrirhugaðs niðurskurðar í heilbrigðisþjónustu á Austurlandi.
Stjórn Svæðisfélags Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs á Héraði, Borgarfirði eystri og Seyðisfirði leggst eindregið gegn þeim harkalega niðurskurði sem boðaður er í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar á þjónustu Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA).
Austfirðingar eru líkt og aðrir landsmenn reiðubúnir að axla byrðar vegna efnahagsástandsins en krafa um 22% niðurskurð á framlögum ríkisins til HSA, þar af 52% niðurskurð á sjúkrasviði stofnunarinnar gengur einfaldlega alltof langt. Komi hún til framkvæmda mun grunnþjónusta, sem á að teljast sjálfsögð, verða þurrkuð út og tugum starfsmanna sagt upp störfum. Af því munu leiða mjög mikil neikvæð, samfélagsleg áhrif.
Sparnaðarkrafan á HSA er vanhugsuð og sparnaðurinn af henni óljós vegna kostnaðar sem niðurskurðurinn mun leiða af sér, s.s. vegna sjúkraflutninga og greiðslu atvinnuleysisbóta til starfsfólks sem missir vinnuna. Skaðinn af aðgerðunum er hins vegar augljós og hann mun verða varanlegur, komi þessi niðurskurður til framkvæmda.
Stjórn Svæðisfélags Vinstri grænna á Héraði, Borgarfirði og Seyðisfirði tekur undir ályktun almenns borgarafundar um heilbrigðismál á Austurlandi sem haldinn var í íþróttahúsinu á Egilsstöðum þann 10. október sl. Jafnframt hvetur stjórn svæðisfélagsins stjórnvöld til að endurskoða fyrirliggjandi niðurskurðarhugmyndir og færa þær til þess horfs að þjónusta skerðist sem minnst og að sjálfsögð grunnþjónusta verði áfram til staðar.
Stjórn Svæðisfélags Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs á Héraði, Borgarfirði eystri og Seyðisfirði.