Vandamálið að allir eru á sumardekkjum
Talsverður erill var hjá lögreglu og björgunarsveitum í gær við að aðstoða ferðalanga í vandræðum á fjallvegum. Tvær bílveltur voru tilkynntar og tveir árekstrar á Breiðdalsheiði.Dagurinn byrjaði með bílveltu á Öxi um klukkan ellefu og skömmu síðar var tilkynnt um aðra veltu á Jökuldal. Engin slys urðu á fólki í þessum óhöppum heldur skautuðu bílarnir út af á hægri ferð í krapa og hálku.
Eftir hádegið var tilkynnt um tvo árekstra á Breiðdalsheiði. Fyrst skullu tveir bílar saman og síðan fjórir. Árekstrarnir urðu allir á lítilli ferð en ökumenn bílaleigubíla á sumardekkjum náðu ekki að stöðva þá í snjónum. Vegna þessa var Breiðdalsheiði lokað á tíma í gær.
Hjá lögreglunni á Egilsstöðum fengust þær upplýsingar að talsverð umferð væri um Breiðdalsheiði þar sem heiðin er enn skráð sem þjóðvegur númer eitt í leiðsögutækjum ferðalanga. „Vandamálið er að allir eru á sumardekkjum.“
Um klukkan átta var björgunarsveitin á Vopnafirði kölluð út til að aðstoða ferðafólk á tíu bílum sem voru í vandræðum í Langadal. Í færslu björgunarsveitarinnar segir að alla jafna hefðu aðstæðurnar ekki kallað á stórmál en bílarnir ekki verið útbúnir til ferða á fjöllum. Nú hljóti bílaleigur að keppast við að koma bílum sínum á vetrardekk þannig auðveldar verði fyrir ferðalanga að komast á áfangastað.
Ferðamenn aðstoðaðir í Langadal í gærkvöldi. Mynd: Björgunarsveitin Vopni