Vantar minni íbúðir fyrir eldra fólk

Íbúðir í hjúkrunarheimilinu Sundabúð eru of litlar fyrir fólk sem er tekið að eldast og vill flytja í smærra húsnæði. Framboð á íbúðarhúsnæði er eitt af því sem hamlar uppbyggingu á Vopnafirði.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í greinargerð sveitarfélagsins sem lögð var fram á síðasta fundi hreppsnefndar Vopnafjarðarhrepps. Þar sótti hreppurinn um þátttöku í tilraunaverkefni Íbúðalánasjóðs um uppbyggingu í húsnæðismálum á landsbyggðinni.

Í greinargerðinni, sem byggir á húsnæðisáætlun sem nýverið var unnin fyrir sveitarfélagið, er sérstaklega bent á að hentugar íbúðir vanti fyrir eldra fólk, en hlutfall íbúa yfir fimmtugu á Vopnafirði er yfir landsmeðaltali.

Of litlar íbúðir í Sundabúð

Þar segir að töluvert sé um að fólk búi langt fram eftir aldri í húsnæði sem ekki henti því, enda fasteignaverð lágt og því oft ekki vænlegt að selja stórar eignir fyrir góðar upphæðir. Uppkomin börn hvetji oft foreldra sína til að flytja í íbúðir í Sundabúð sem þau telja henta betur.

En íbúðirnar í Sundabúð þykja of litlar. Þær eru 22 talsins upp á 30 fermetra hver og það er of lítið fyrir hjón sem vilja búa saman og hafa hjá sér helstu heimilistæki. Til skoðunar er að sameina tvær íbúðir til að mæta þessum kröfum.

Eitt hús byggt frá 1995

Í greinargerðinni segir að framboð á nothæfu íbúðarhúsnæði á Vopnafirði sé með minnsta móti. Þótt eftirspurn sé ekki mikil sé hún meiri en framboðið því húsnæði staldri stutt við á markaði. Lágt fasteignaverð en hár byggingakostnaður þýðir að lítið hefur verið byggt á Vopnafirði síðustu áratugi. Frá árinu 1995-2014 reis þar ekkert nýtt íbúðarhús og ekki er útlit fyrir að byggingunni frá 2014 verði fylgt frekar eftir.

Hreppsnefndin hefur leitað leiða til ódýrra húsbygginga en þörf er á minni íbúðum sem henta bæði ungu fólki og eldri borgurum. Nokkrar hugmyndir hafa verið kynntar fyrir nefndinni síðustu misseri en engar ákvarðanir verið teknar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.