Skip to main content

Varað við að frostrigning geti valdið hálku á Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. des 2024 11:13Uppfært 11. des 2024 11:13

Vegagerðin hefur sent frá sér viðvörun um að frostrigning geti í dag skapað mikla hálku á austfirskum vegum. Veðurfræðingur bendir sérstaklega á svæði á Héraði þar sem skilyrði eru fyrir hendi.


Í tilkynningu Vegagerðarinnar frá í morgun segir að búast megi við frostrigningu á Norðaustur- og Austurlandi sem geti skapað glerhálku á stuttum tíma. Vegfarendur þurfi þess vegna að sýna aðgát.

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, útskýrir fyrirbrigðið og aðstæður eystra nánar í færslu frá veðurstofunni Bliku. Víða á Héraði séu auðir vegir en vegyfirborð þeirra forsið.

Í dag sé von á mildu lofti með úrkomu sem berist norður yfir austurhluta Vatnajökuls og austfirsku fjöllin. Hægt og sígandi flæði þetta heitara loft yfir kaldara loft alveg niðri við yfirborðið. Vindur er það hægur að loftskipti verða ekki nógu hröð og skógurinn, sem svo víða er, seinkar þeim enn frekar.

Eftir hádegi í dag er von á rigningu á Fljótsdalshéraði, Jökuldal, Háreksstaðaleið og Möðrudalsöræfum. Þar er því mikil hætta á hálku þótt lofthiti verði yfir frostmarki.