Skip to main content
Brýnt að hreinsa öll niðurföll við þær aðstæður sem framundan eru segir Veðurstofan

Varað við asahláku á Austfjörðum snemma í fyrramálið

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. okt 2025 10:50Uppfært 30. okt 2025 14:58

Snjókoma og frost síðustu vikna víkur í nótt fyrir rigningu og ört vaxandi hitastigi á Austurlandi með vaxandi austan- og norðaustanátt strax upp úr miðnætti í nótt. Gul viðvörun hefur verið gefin út fyrir Austfirðina vegna asahláku.

Búast má við miklum leysingum  þegar líða fer á morguninn og vatnavöxtum í ám og lækjum að sögn Veðurstofu Íslands en búist er við fjögurra til fimm stiga hita víðast hvar í fjórðungnum þegar líða fer á morgundaginn og vindhraða allt að sextán metrum á sekúndu í þokkabót um tíma.

Fólk er sérstaklega varað við asahláku við þessar aðstæður en slík myndast þegar það rignir duglega ofan á klakabunka eða þjappaðan snjó sem fyrir er. Þá er fólk ekki síður hvatt til að hreinsa vel frá öllum niðurföllum til að forðast hugsanlegt vatnstjón.

Viðvörun Veðurstofunnar gildar frá því klukkan 7 í fyrramálið til klukkan 17 síðdegis en nær enn sem stendur aðeins til fjarðanna.

Uppfært:

Laust eftir hádegi bætti Veðurstofan við gulri viðvörun fyrir Austurland að Glettingi á sama tímabili en mikil rigning og eða slydda mun stórauka afrennsli og vatnavexti í ám og lækjum.