Varað við fljúgandi hálku í fjörðum Austurlands
Töluvert snjóaði austanlands í morgun sem, eins og Austurfrétt hefur greint frá í dag, olli enn meiri vandræðum fyrir viðbragðsaðila og Vegagerðina auk annarra. Það breyttist svo í rigningu þegar líða fór að hádegi og með hitastiginu í og við frostmark í kjölfarið hefur sú þróun valdið fljúgandi hálku víða í fjórðungnum.
Vegfarendur höfðu sérstaklega samband við Austurfrétt til að vara við versnandi akstursskilyrðunum. Snjórinn fljótt breyst í krapa sem svo byrjar að frjósa sem veldur því að akstursskilyrði vegna ívið erfiðari en ella.
Hjá Vegagerðinni fengust þær upplýsingar að moksturstæki væru að störfum vegna þess ástands og yrði svo áfram. Hjá lögreglunni höfðu menn engar spurnir af neinum slysum eða óhöppum vegna skyndilegra hálkuaðstæðna þegar eftir var leitað.
Samkvæmt Veðurstofu Íslands er gert ráð fyrir smávægilegum hita víðast hvar í fjórðungnum þegar líða tekur á daginn.
Mynd tekin í Hafnargötunni á Fáskrúðsfirði upp úr hádeginu. Mikið slabb á vegum og frost ofan á það sem umsvifalítið skapar hálkuaðstæður.