Skip to main content

Varað við hugsanlegum stormi á Austfjörðum í nótt

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 17. jan 2025 09:37Uppfært 17. jan 2025 09:37

Veður versnar til muna og færð spillist verulega laust fyrir miðnætti í kvöld samkvæmt gulri viðvörun sem Veðurstofa Íslands hefur gefið út fyrir Austfirði.

Viðvörunin tekur formlega gildi í fjörðum Austurlands klukkan 23 í kvöld og verður í gildi fram til klukkan 7 í fyrramálið. Viðvörunin nær jafnframt til Suður- og Suðausturlands.

Gangi spáin eftir mun hvessa töluvert með kvöldinu á þessum stöðum og líklegt að vindar úr austri eða norðaustri geti náð allt að 20 metrum á sekúndu. Þessu fylgir töluverð snjókoma og skafrenningur á sama tíma svo afar líklegt þykir að það komi til samgöngutruflana í nótt og hugsanlega eitthvað fram eftir morgni í fyrramálið. Það á sérstaklega við um fjallvegi.

Þessu tengdu metur ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands snjóflóðahættuna töluverða í fjalllendi austanlands á morgun laugardag. Hún mælist lítil í dag og hættan minnkar niður í nokkra hættu strax á sunnudaginn kemur.