Skip to main content

Varað við leysingum á morgun

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. jan 2025 22:06Uppfært 11. jan 2025 22:07

Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun vegna mikillar hláku á Austfjörðum á morgun. Von er á hlýindum og rigningu sem eykst þegar líður á daginn.


Viðvörunin gildir frá klukkan átta á sunnudagsmorgni til klukkan fjögur síðdegis. Spáð er 3-10 stiga hita, hlýjast seinni partinn. Viðvörunin tekur gildi um það leyti sem byrjar að rigna.

Því er beint til íbúa að hreinsa frá niðurföllum því veðrið framkallar leysingar, aukið afrennsli og vatnavexti í ám og lækjum.

Í yfirliti ofanflóðadeildar segir að líklegt sé að vot snjóflóð falli til fjalla en ekki er búist við stórum flóðum. Hætta er á grjóthruni en úrkoman er ekki talin nægjanleg til að koma skriðum af stað. Krapaflóð gætu fallið þar sem mikill snjór er.

Þá er líklegt að mikil hálka myndist þar sem regnið fellur á klakabunka eða samþjappaðan snjó. Strax aðfaranótt mánudags frystir aftur inn til landsins meðan út við ströndina verður áfram hlýtt miðað við árstíma.