Skip to main content

Varla hægt að leita að loðnu fyrr en seinni hluta vikunnar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. jan 2025 11:19Uppfært 13. jan 2025 11:19

Ekki er útlit fyrir að veður verði þannig að hægt verði að halda til loðnuleitar fyrr en seinni hluta þessarar viku. Verið er að kvarða tvö skip til leitar á Austfjörðum í dag og kolmunnaskip á landleið horfa eftir loðnu.


Heimaey, skip Ísfélagsins í Vestmannaeyjum, er á leið inn til Austfjarða til kvörðunar. Skipið heldur síðan áfram til Þórshafnar þar sem það landar. Polar Ammassak verður einnig kvarðað í dag eða á morgun. Veðurútlit er þó þannig að ólíklegt þykir að skipin haldi til leitar fyrr en á fimmtudag.

Leiðangurinn er farinn í samvinnu uppsjávarútgerða og Hafrannsóknastofnunar. Stefnt er að því að útgerðirnar leggi til þrjú skip til leitar. Ekki er staðfest hvert þriðja skipið verður en Aðalsteinn Jónsson frá Eskifirði var nýttur til leitar fyrir jól og er því búinn í hana.

Árni Friðriksson, skip stofnunarinnar, er í viðgerð í Reykjavík og er vonast til að henni ljúki í dag. Þar er ekki útlit fyrir að veður verði með þeim hætti að hægt verði að kvarða skipið fyrr en á fimmtudag. Ekki er heldur ákveðið enn nákvæmlega hvar skipið mun hefja sína leit. Endanlegt skipulag hennar skýrist betur þegar líður á daginn.

Uppsjávarveiðiskipin hafa síðustu daga verið á kolmunnaveiðum milli Færeyja og Skotlands. Þau hófu um helgina að sigla heim eftir siglingaleiðum sem Hafrannsóknastofnun hefur markað. Þannig er vonast til að þau nái að fara yfir svæði suður og austur af Íslandi til að kanna hversu langt til austurs loðna kunni að vera komin. Þau hafa ekki enn fundið neitt en Hoffell, Jón Kjartansson og Beitir nálgast landið og þar á eftir koma Börkur og Svanur.