Vatnsréttindi: Almenni markaðurinn gæti ekki tekið við rafmagninu frá Kárahnjúkum

alver_eldur_0004_web.jpgMatsnefnd á vatnsréttindum við Kárahnjúkavirkjun taldi árið 2007 að ekki væru aðrir vænlegir kaupendur að orku frá virkjuninni heldur en álver Alcoa í Reyðarfirði. Það rýrir því kröfur landeigenda um háar bætur.

 

Héraðsdómur Austurlands staðfesti í gær hinn tæplega fjögurra ára gamla úrskurð um að bætur til landeigenda fyrir vatnsréttindin skyldu vera um 1,6 milljarðar króna.

Matsnefndin benti á það sumarið 2007 að ekki hefði verið sýnt fram á að annar vænlegur sölumarkaður sé fyrir orkuna af svæðinu við Kárahnjúkavirkjun í sjáanlegri framtíð. Annar stórkaupandi hefði þurft að koma til og ekki enn komin skilyrði til að selja hana erlendis. Óvíst hvort eða hvenær slíkt verði arðsamt.

„Forsendur Kárahnjúkavirkjunar tengist því álframleiðslu eða annarri orkufrekri starfsemi, þar sem rafmagnsverð þurfi að vera samkeppnishæft við verð, sem bjóðist annarsstaðar í heiminum.“

Nefndin sagði breytingar á rekstrarumhverfi raforkuvera sem urðu við gildistöku raforkulaga árið 2003 aðeins hafa náð til innlandsmarkaðar. „Ljóst sé því að almenni markaðurinn myndi aldrei geta tekið við framleiðslugetu Kárahnjúkavirkjunar, ef vanefndir yrðu af hálfu Alcoa-Fjarðaáls hf. á raforkukaupum.“

Nefndin féllst heldur ekki á það á sínum tíma að hafa skyldi til hliðsjónar norska dóma. Þar sé rafmagn þegar flutt úr landi og nær öll vatnsorka fullnýtt. Þau vatnsföll sem ekki hafi verið virkjuð og eitthvað kveði af verði áfram óvirkjuð af náttúrverndarástæðum.

Rök landeigenda byggðust meðal annars á að þótt í úrskurði matsnefndarinnar væri vísað til notagildismælikvarða bæri rökstuðningur hennar það ekki með sér því verðmæti vatnsréttindanna væri ákveðið sem hlutfall af stofnkostnaði. Niðurstaða nefndarinnar byggðist á ályktun sem væri í beinu ósamræmi við gildandi lög. Landeigendur gagnrýndu skort á sjálfstæðri matsvinnu matsnefndarinnar og hún hefði meðal annars notast við einhliða arðsemismat Landsvirkjunar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.