Veðurstofan ánægð með mælitækin á Seyðisfirði

Sérfræðingar Veðurstofu Íslands eru afar ánægðir með þau gögn sem þeim berast úr mælitækjum sem vakta jarðhreyfingar í hlíðinni fyrir ofan byggðina í sunnanverðum Seyðisfirði. Enn er verið að setja upp ný tæki til að styrkja kerfið.

„Vöktunarnetið er orðið þétt og virkar vel. Við höfum séð hreyfingu þótt lítil sé,“ sagði Magni Hreinn Jónsson, hópstjóri hjá ofanflóðadeild Veðurstofunnar á íbúafundi með Seyðfirðingum í gær.

Úrkomumagn á Seyðisfirði er komið vel yfir 200 mm. í mánuðinum, þótt úrkoma í nótt hafi aðeins orðið um 20 mm. af þeim mm. sem spáð var. Grunnvatnsstaða í borholum í Neðri-Botnum hækkaði hratt í síðustu viku en þar eru staðsettir ellefu mælar sem nema hana. Hún hefur haldist áfram há í vikunni en lækkar inn á milli þegar styttir upp. Í nokkrum borholum eru einnig mælar sem nema aflögun jarðvegs. Hreyfingar á þeim sýna ekki marktækar hreyfingar.

Þurrt verður fram eftir degi en seinni partinn fer aftur að rigna og er búist við 30 mm. fram á morgundaginn. Vindur verður austan eða suðaustan og telur Veðurstofan líkur á að rigningin verði mögulega minni en spáð er. Ekki hefur verið talin ástæða til aðgerða enda úrkoman enn aðeins brot af því sem þekkist á Seyðisfirði þegar mest lætur.

Mismunandi kerfi vinna vel saman

Í lok síðustu viku, frá fimmtudegi til laugardags, mældist hreyfing upp á 1,5 sm. á hrygg við Búðará. Sá hryggur skreið um 80 sm. í október í fyrra og hefur færst um metra síðan byrjað var að fylgjast með honum eftir stóru skriðuna þann 18. desember 2020. Þá mældist 3 mm. hreyfing í Þófa.

Mælingarnar mældust með radartæki sem staðsett er hinu megin í firðinum. „Það er magnað hvað hægt er að greina með honum,“ sagði Magni Hreinn og bætti við að tækið hefði það kost að virka óháð skyggni, svo sem þegar rigning truflar önnur mælitæki. „Við erum ánægð með hvað mælikerfið virkar vel og að við höfum mismunandi kerfi sem staðfesta að önnur virki.“

Frá árinu 2002 hafa verið GPS mælingar, speglar, í Neðri-Botnum. Hreyfing þar er um 1-2 sm. á ári og kemur helst fram þegar grunnvatnsstaða er há. Magni sagði hreyfingar á þeim óverulegar og engar síðan á laugardag.

Áfram er unnið að því að styrkja mælikerfið á Seyðisfirði. Þar hafa verið boraðar fleiri holur í hlíðina í haust. Sex nýir speglar verða settir upp í Þófum auk vatnshæðarmælis í borholu fremst í Brún og aflögunarmælis. Á Botnasvæðinu er verið að færa aflögunarmæli við Fossgötu og setja upp annan við Kofann. Þá bætist vatnshæðarmælir við í borholu ofan Botnahlíðar.

Veðurstofan sendir frá sér upplýsingar um stöðuna eystra á heimasíðu sinni fyrir hádegi hvern dag á meðan úrkomutíðinni stendur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.