Veiðimenn virðast ekki hlífa grágæsinni þrátt fyrir tilmæli

„Það er nú svona ekki mín tilfinning að veiðimenn séu almennt eitthvað sérstaklega að hlífa grágæsinni,“ segir Halldór Walter Stefánsson, veiðieftirlitsmaður hjá Náttúrustofu Austurlands.

Gæsaveiðimenn hafa verið að síðan seinnipart ágúst víða um landið og gengur veiði þokkalega eftir því sem veiðimenn segja við Austurfrétt. En ekki virðast margir þeirra fara sérstaklega að tilmælum Umhverfisstofnunar þess efnis að reyna að hlífa grágæsinni og veiða frekar heiðargæs eins og Halldór hefur tilfinningu fyrir.

Ástæða tilmæla stofnunarinnar sú að samkvæmt talningum hefur grágæs fækkað jafnt og þétt hin síðustu ár. Talning 2019 benti til að stofninn hefði því sem næst helmingast frá árinu 2011 og hafa menn ákveðnar áhyggjur af þeirri stöðu. Á móti kemur að heiðagæsastofninn er mjög sterkur eins og hann hefur verið undanfarin ár.

Halldór bendir reyndar á að ákveðið misræmi sé milli talninga hérlendis og í Skotland og Bretlandi og ekki séu allir sammála um mikla fækkun á grágæs. „Flestir veiðimenn byrja auðvitað á heiðagæsinni og færa sig svo í grágæs en heiðargæsin heldur til vetrarstöðva sinna á Bretlandseyjum töluvert fyrr en grágæsin. Mér sýnist menn bara veiða heiðargæs meðan til hennar næst en fari svo í grágæsina.“

Halldór segir að fyrstu niðurstöður nýrra mælitækja sem tekin voru í notkun á þessu ári og eiga að hjálpa til við að staðsetja nákvæmlega vetrarstöðvar fuglanna á Bretlandseyjum verði ljósar innan tíðar. Þær upplýsingar geti varpað ljósi á hvers vegna svo miklu munar á talningum Breta og svo hér varðandi grágæsina.

Mynd Wikipedia

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.